COVID-19: minnihlutahópar í skotlínunni

Áhyggjur eru af því á Norðurlöndum og víðar að minnihlutahópar verði hlutfallslega mest fyrir barðinu á COVID-19. Á Íslandi hafi Pólverjar verið gerðir að blórabögglum. Víða hafa fleiri innflytjendur veikst en almennt gerist og færri þeirra verið bólusettir.

Pólski sendiherrann á Íslandi kvartaði nýlega við utanríkisráðherra yfir því að landar hans á Íslandi væru gerðir ábyrgir fyrir hegðun einstaklinga. Pólverjar eru sem kunnugt er fjölmennasti minnihlutahópur á Íslandi og telja þeir hátt á þriðja tug þúsunda einstaklinga.

Við þurfum hvert annað

Pólsk-íslenskur fögnuður. Mynd: Zimnolubni Islandia

Anna Karen Svövudóttir, samskiptaráðgjafi pólskumælandi hjá heilbrigðisráðuneytinu, segir að umræða undanfarið hafi farið úr böndunum og leiðst inn á villigötur.

„Það varð smá umræða fyrir viku, en hún var byggð á misskilningi og fór ekki í réttan farveg.   Það hjálpar engum að að kenna einhverjum einum hópi um, og gera hann ábyrgan fyrir einum manni,” sagði Anna Karen í viðtali við vefsíðu UNRICs. „Við verðum að hjálpa hvert öðru, við búum í einu samfélagi og við verðum að vera þolinmóð og skilningsrík gagnvart öðrum. Við þurfum hvert annað. Eins og í hjónabandi.”

Ráðherra fordæmdi smitskömmun

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fordæmdi þá „smitskömmun” sem Pólverjar á Íslandi hefðu mátt sæta.

COVID-19 Innflytjendur
Guðlaugur Þór Þórðarson og Gerard Pokruszyńskim sendiherra Póllands. Mynd. Utanríkisráðuneytið.

„Við getum ekki liðið að fólki sé mismunað á slíkum grundvelli enda fer veiran ekki í manngreinarálit,” sagði Guðlaugur Þór í fréttatilkynningu. „Pólska samfélagið hér á landi hefur bæði auðgað þjóðlífið og átt ríkan þátt í skapa hagsæld undanfarinna ára og umræða undanfarinna daga í þess garð er bæði óvægin og ósanngjörn.”

Víðir Reyn­is­son yf­ir­lög­regluþjónn sagði á upp­lýs­ing­a­fundi al­manna­varna nýlega að ein­stak­ling­ar af er­lend­um upp­runa sem hefðu smit­ast af COVID-19 í hópsmit­um hefðu lent í rasísk­um skila­boðum.

Aðeins saman

COVID-19 innflytjendur
Aðeins saman herferð SÞ.

Sameinuðu þjóðirnar hleyptu nýlega af stokkunum alþjóðlegu herferðinni „Aðeins Saman” (Only Together)  „Sameinuðu þjóðirnar munu halda áfram að beina athygli alþjóða samfélagsins að þörfum þeirra sem hafa borið þyngstu byrðarnar á mörgum sviðum í þessari. Þar má nefna konur, minnihlutahópa, eldra fólk, fatlaða og frumbyggja,” sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar herferðin var kynnt.

Noregur: harðast úti, minnst bólusettir

 Ein af ástæðum þess að Sameinuðu þjóðirnar beina sjónum að minnihlutahópum og innflytjendum er að þeir hafa hlutfallslega veikst meir en aðrir. Víða eru minnihlutahópar fjölmennir í illa launuðum framlínustörfum þar sem mikil hætta er á smiti svo sem við þrif, í samgöngum og öðrum þjónustustörfum.

COVID-19 Innflytjendur
Mynd: CDC/Unsplash

Þótt innflyjtjendur í Noregi hafi orðið hlutfallslega harðast úti eru þeir síður bólusettir en Norðmenn, að sögn blaðsins Aftenposten.

Mun færra fólk, 75 ára og eldri, sem fætt er í Póllandi, Sómalíu, Pakistan og Írak hefur verið bólusett en jafnaldrar þeirra  sem fæddir eru í Noregi. Aðeins þriðjungur Sómala á þessum aldri hefur hingað til verið bólusettur. Munurinn er sláandi því 95% norskfæddra jafnaldra hafa verið bólusettir.

Mohamed Yusuf, einn forystumanna Sómala í Noregi segir að ein ástæðan kunni að vera sú að þeir þurfi hvatningu og upplýsingar sem berist þeim með réttum boðleiðum.

COVID-19 Minnihlutahópar
Anna Karen Svövudóttir. Mynd: Heilbrigðisráðuneytið.

Það getur verið snúið fyrir yfirvöld að ná til innflytjenda. Anna Karen Svövudóttir í heilbrigðisráðuneytinu minnir á að jafnvel Pólverjar á Íslandi séu ekki einsleitur hópur. Sumir komi og dvelji ef til vill aðeins í 2 vikur til að sinna ákveðnum verkefnum. Þeir hafi ekki íslenskt símanúmer og oft og tíðum ekki aðgang að samfélagsmiðlum

Bólusetningafælni

 Sums staðar er viðvarandi bólusetningfælni. Í Bretlandi höfðu 90% einstaklinga verið bólusettir eða ætluðu að láta bólusetja sig að sögn The Guardian. Hins vegar leiddi könnuni í ljós mikla bólusetningfælni á meðal ýmissa minihlutahópa.

Umræðan um öryggi AstraZeneca bóluefnisins ýtti undir neikvæð viðhorf á meðal Sómala í Noregi að sögn Yusuf, hins norska oddvita Sómala. Í viðtali við Aftenposten sagði hann að það væri lykilatriði að koma á framfæri upplýsingum um bólusetningar á grundvelli traustra heimilda og að Sómalir sjálfir miðli þeim til landa sinna.

Anna Karen Sölvadóttir segir að mikið hafi verið þýtt af upplýsingum um COVID-19 á pólsku en hins vegar sé á brattan að sækja því eðli málsins samkvæmt breytist upplýsingarnar, rétt eins og veiran sjálf og viðbrögðin við henni.

Menningarmunur

COVID-19 Innflytjendur„Upplýsingar eru samt ekki alltaf að skila sér. Ein ástæðan er sú að það er menningarmunur. Sumt sem er alveg skýrt í augum Íslendinga er það ekki fyrir Pólverja. Þeir eru vanir öðru kerfi, annari menningu og hugsa svolítið öðru vísi. Við erum samt á réttri leið.”

Þetta á enn meira við um aðra innflytjendahópa á Norðurlöndum. Muhis Azizi formaður fjölmenningaráðs borgarinnar Turku í Finnlandi benti á dæmi í viðtali við YLE, finnska ríkisútvarpið.

Bábiljur

„Sú saga gengur innan stórs hóps að konur sem séu bólusettar með AstraZeneca verði ófrjóar. Ég hef verið margspurður hvort þetta sé rétt. Einn maður sagði mér að það standi skýrum stöfum að bíða skuli með getnað þar til tveimur mánuðum eftir bólusetningum,” útskýrir hann.

Þetta virðist hafa ýtt undir þennan orðróm. Hér á landi eru dæmi um misskilning sem stafað hefur af því að Pólverjar hafa notað “Google translate” og dreift á samfélagsmiðlum.

Turku-búinn Azizi segir með ólíkindum hvað villandi fréttir af þessu tagi eigi greiðan aðgang að samfélögum innflytja.„Þetta getur því miður valdið miklum skaða í þjóðfélaginu.”

Ein hugmynd sem rædd hefur verið í Finnlandi er að leita beint til innflytjenda.

„Við ættum að notast við færanlegar bólusetningar-miðstöðvar og fara í verslunarmiðstöðvar og úthverfi,” segir Markku Tervahauta hjá finnsku heilbrigðis- og velferðarmiðstöðinni í samtali við YLE. „Best væri ef við gætum beinlínis bólusett fólk í garðinum heima hjá sér.”

Fréttir

Álit framkvæmdastjóra