COVID-19 og konur

0
774
COVID-19, konur
Konur í Tælandi andspænis COVID-19. Mynd: UN Women_ loy Phutpheng

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til þess að hagsmunir kvenna og réttindi verði í fyrirrúmi í aðgerðum til að komast yfir COVID-19 faraldurinn og afleiðingar hans.

Þetta kemur fram í kjallaragrein Guterres sem birtist í ýmsum dagblöðum í heiminum í dag.COVID-19, 

COVID-19 og konur

-eftir António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Ýmislegt bendir til að COVID-19 veiran sé körlum, og þá einkum hinum eldri, skeinuhættari en öðrum. En faraldurinn hefur einnig varpað ljósi á og aukið hvers kyns ójöfnuð, þar á meðal á milli kynjanna. Til lengri tíma litið geta áhrifin á heilsu kvenna, réttindi og frelsi skaðað okkur öll.

Konur verða nú þegar fyrir barðinu á lokunum og sóttkvíum. Slíkar hindranir eru nauðsynlegar en þær auka hættuna á ofbeldi gegn konum sem eru lokaðar inni á heimilum með ofbeldishneigðum sambýlismönnum. Síðustu vikur höfum við orðið vör við alvarlega aukningu heimilisofbeldis um allan heim. Að sögn stærstu bresku samtaka um kvennaathvarf hefur orðið 700% fjölgun hringinga til þeirra. Á sama tíma stendur slík stuðningsþjónusta við konur frammi fyrir niðurskurði og lokunum.

Ofbeldi gegn konum

Þetta var baksvið nýlegrar áskorunar minnar um frið á heimilum um allan heim. Síðan hafa meir en 143 ríkisstjórnir skuldbundið sig til að styðja konur og stúlkur sem eiga yfir höfði sér ofbeldi á meðan á faraldrinum stendur. Hvert ríki getur gripið til aðgerða með því að flytja þjónustu á netið, fjölga kvennathvörfum og skilgreina þau sem grundvallarþjónustu, og auka stuðning við samtök sem starfa á víglínunni. Sameinuðu þjóðirnar starfa í samvinnu við Evrópusambandið við Spotlight-frumkvæðið í meir en 25 ríkjum að þessum og svipuðum úrræðum og er reiðubúið að færa út kvíarnar.

En það er ekki aðeins líkamlegt ofbeldi samfara COVID-19 sem grefur undan réttindum og frelsi kvenna. Líklegt er að efnahagsleg niðursveifla sem fylgir faraldrinum bitni á konum.

Kröpp kjör

Ósanngjörn meðferð og misrétti sem vinnandi konur sæta er ein ástæða þess að ég hóf afskipti af stjórnmálum. Á námsmárum mínum í lok sjöunda áratugarins vann ég sjálfboðaliðastarf í fátækum hlutum Lissabon. Ég kynntist konum sem bjuggu við kröpp kjör, unnu erfiðisvinnu og þurftu að taka ábyrgð á stórfjölskyldum sínum. Ég sannfærðist um að þessu þyrfti að breyta og á ævi minni hef ég orðið vitni að miklum breytingum.

En áratugum síðar er hætta á því að þessar erfiðu tímar komi aftur vegna COVID-19 og konur um allan heim súpi seyðið af því.

Konur eru hlutfallslega fleiri í illa launuðum störfum án hlunninda til dæmis sem heimilishjálp, í ígripavinnu, götusölu og þjónustugreinum í smáu sniði, svo sem hárgreiðslu. Alþjóða vinnumálastofnunin (ILO) telur að nærri 200 milljónir starfa muni tapast aðeins á næstu þremur mánuðum – og mörg þeirra eru einmitt í þessum greinum.

Og á sama tíma og konur missa launaða vinnu, þurfa þær að sinna enn meiri umönnun vegna lokunar skóla, útkeyrðra heilbrigðiskerfa og aukinna þarfa eldra fólks.

En gleymum ekki stúlkunum sem verða að hætta námi. Í sumum þorpum í Sierra Leone minnkaði hlutfallsleg skólasókn táningsstúkna úr 50% í 34% þegar Ebóla-veiran herjaði á landið með slæmum afleiðingum fyrir þær og samfélög þeirra til lífstíðar.

Konur vinna þrisvar sinnum meiri heimilisstörf

Margir karlar standa líka frammi fyrir atvinnumissi og þversagnakenndum kröfum. En jafnvel þegar best lætur vinna konur í heiminum þrisvar sinnum meira á heimilum en karlar. Þetta þýðir að líklegar er að barnagæsla sé á þeirra herðum ef fyrirtæki opna á sama tíma og skólar eru lokaðir og því er slegið á frest að þær fari aftur í launaða vinnu.

Djúpstætt misrétti hefur einnig í för með sér að þótt konur séu 70% af vinnuafli heilbrigðiskerfisins eru miklu fleiri karlar við stjórnvölinn. Aðeins tíundi hver pólítískur leiðtogi í heiminum er kvenkyns og það kemur niður á okkur öllum. Við þurfum að hafa konur við borðið þegar ákvarðanir eru teknar um faraldurinn til þess að hindra að allt fari á versta vegi með annari hrinu smita, atvinnuleysi og jafnvel félagslegum óróa.

Tryggja þarf hag kvenna í óformlega hagkerfinu

Konur í ótryggri atvinnu þurfa á brýnni félagslegri vernd að halda, hvort heldur sem er heilsutryggingu eða greiddum veikindadögum, barnagæslu, tekjutryggingu og atvinnuleysisbótum.  Ef við lítum fram á veginn þá ber að miða aðgerðir til að glæða efnahagslífið við konur. Peningagreiðslum, lánum og lánaívilnunum og fjárhagslegum björgunaraðgerðum verður að beina til kvenna, hvort sem þær vinna fullt starf í formlega hagkerfinu, í árstíðabundnum störfum í óformlega hagkerfinu, eða sem athafnakonur og eigendur fyrirtækja.

COVID-19 faraldurinn hefur sýnt enn betur fram á en áður að ólaunuð heimilisstörf kvenna niðurgreiða bæði opinbera þjónustu og ágóða einkageirans. Taka verður tillit til þessarar vinnu í efnahagslegum reikningum og ákvarðanatöku.   Við munum öll hagnast á því að umönnun fólks sé metin að verðleikum og efnhagslegum módelum sem taka tillit til allra, þar á meðal vinnu á heimilum.

Þessi faraldur íþyngir ekki aðeins heilbrigðiskerfi heimsins heldur er hann einnig áskorun fyrir skuldbindingar okkar um jafnrétti og mannlega reisn.

Ef við höfum hagsmuni og réttindi kvenna að leiðarljósi munum við komast yfir þennan faraldur hraðar en ella og byggja upp jafnari og þolbetri samfélög í allra þágu.