Grænland: Glæstar vonir eða Vígamenn vítis?

0
1067
COVID-19, Grænland
Angu með riffil. Við hlið hans hin þekkta sænska leikkona Lena Endre. Mynd: Saga Sig.

Nafn leikarans Angunnguaq Larsen er kannski ekki mjög þekkt utan Grænlands en andlit hans er kunnuglegt á íslenskum heimilum og víðar. Hann leikur grænlenska lögreglustjórann í sænsk-íslensku sjónvarpsþáttunum Ísalögum. Þótt refskák risaveldanna sé dramatísk í þáttunum nær hún ekki alltaf að skyggja á fegurð grænlenskra fjalla og Snæfellsness.

 Sagafilm og sænska fyrirtækið Yellow Bird framleiða þættina. Voru þeir að hluta teknir í Stykkishólmi sem þannig „leikur” grænlenskan bæ, en grænlensk náttúra leikur sjálfa sig með glans.

COVID-19, Grænland
Grænlensk náttúra nýtur sín í Ísalögum þótt stór hluti sé tekinn í Stykkisholmi. Mynd: Guðjón Jónsson.

Angunnguaq leikur grænlenskan lögreglustjóra og með rólegu yfirbragði og sjarma minnir hann einna helst á Clint Eastwood. En Ísalög eru enginn spaggettí-vestri heldur „Nordic noir”-spennuþættir þar sem stórveldin takast á um auðlindir Grænlands. Þættirnir hafa verið sýndir á öllum Norðurlöndum og verða brátt sýndir víðar,

Angunnguaq Larsen er brosmildur maður. Hann hefur reyndar góðar ástæður til að brosa. Ekki aðeins hefur hann vakið athygli í þáttunum heldur er nú samkomubanni aflétt í heimalandinu.

Angunnguaq er fjörutíu og fjögurra ára gamall. Auk leiklistarinnar er hann menntaður hljóðmaður og gítarleikari í hljómsveitum. Hann segir að hann hafi notið tímans í útgöngubanninu heima með konu sinni og þremur dætrum.

Fjölskyldubönd treyst

COVID-19, Grænland.
Angu stendur í ströngu í þáttunum og hér þarf hann að handtaka grænlenskan andófsmann. Mynd: Óli Magg.

„Ég held að samskiptabannið hafi gert mörgum gott,” segir Angu eins og hann er oftast kallaður í viðtali við vefsíðu UNRIC. „Líf okkar einkenndist af miklum hraða áður en allt lokaði. Undanfarnar vikur höfum við verið nánast bara heima og þetta hefur þjappað fjölskyldunni saman.”

Vettvangur Sameinuðu þjóðanna fyrir frumbyggja í heiminum hefur lýst áhyggjum sínum af því að frumbyggjar fái ekki upplýsingar um kórónaveiruna á móðurmáli sínu, en það er til marks um sérstöðu Grænlands að það á ekki við þar. Grænland hefur stjórn í eigin málum og grænlenska er opinbert mál. En umræður í Danmörku um Grænland hafa hingað til oftast nær snúist um fjárútlát til eyjarinnar. Félagsleg vandamál voru mesta fréttaefnið þar til á seinustu árum að stórveldi tóku að sýna Norðurslóðum áhuga.

„Danir töldu það stórfrétt þegar áfengsibann var tilkynnt á Grænlandi. Þeir höfðu þó lítinn sem engan áhuga á því þegar engin ný smit fundust,“ segir Angu. Sem kunnugt er, er enn langt í land með að slíkum árangri verði náð í Danmörku.

Aðeins 60 þúsund búa á Grænlandi en það er nóg pláss því eyjan er nærri 2.2 miljónir ferkílómetrar og því meir en tuttugu sinnum stærri en Ísland og álíka stór og öll Vestur-Evrópa eða Frakkland, Þýskaland, Bretland, Ítalía og Spánn samanlagt.

Ný staða

COVID-19, Grænland
Ísalög hafa verið seld til allra Norðurlanda og Frakklands og fleir ríki munu væntanlega sigla í kjölfarið.

Þótt jökulinn hylji stærstan hluta Grænlands er íslausi hlutinn stærri en Svíþjóð eða Ísland og noregur samanlegt. Bráðnun íssins og útlit fyrir íslaust norðurskaut að sumri hafa skapað nýjan heimspólitískan veruleika.

Það kemur þeim auðvitað ekkert á óvart sem hafa horft á Ísalög á sunnudögum á RÚV að stórveldin stundi reiptog um Grænland við Dani, en síðan þættirnir voru gerðir hefur mikið vatn runnið til sjávar.

„Já það er alveg rétt að lífið hefur hermt eftir listinni, það er vel orðað,“ segir Angu og engin furða því sama dag og tilkynnt var um að Grænland opnaði á ný tilkynnti Bandaríkjastjórn um óumbeðna 12 milljón Bandaríkjadala efnahagsaðstoð.

Áður en eftir að tökur hófust á Ísalögum hafði Donald Trump Bandaríkjaforseti boðist til að kaupa Grænland en Danir höfnuðu kauptilboðinu.

Grænlendingar voru ekki spurðir álits en Angu er tortrygginn á vinahót Ameríku.

„Hér spyrja sig allir hvers vegna við ættum að fá aðstoð frá Bandaríkjunum. Það trúir því enginn að ekkert annað hangi á spýtunni.“

Loftslagsbreytingar og olía 

COVID-19, Ísalög.
Ráðherrarnir í Ísalögum. Mynd: Óli Magg.

Í þáttunum leikur Angunnguaq Larsen lögreglustjóra grænlensks smábæjar sem hýsir fund utanríkisráðherra aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Til stendur að þeir undirriti sáttmála um bann við frekari olíuleit á Norðurskautssvæðinu.

En það setur strik í reikninginn að ráðherrunum er ókunnugt um að gríðarstórar olíulindir hafa þegar fundist í grænlenskri lögsögu og er beitt ofbeldi til að hindra undirritunina. Áhorfendur vita síðan lengst af ekki hverjir vondu mennirnir eru: Kanar, Rússar, Svíar eða Danir.

Gert hefur verið ráð fyrir því að auðveldara verði að nýta auðlindir í iðrum Grænlands eftir því sem jöklarnir hörfi í kjölfar loftslagsbreytinga. Sjaldgæfir málmar sem notaðir eru í síma og fjarskiptabúnað, gull og demantar finnast þar í jörðu en vegna hás kostnaðar hefur minna orðið úr vinnslu en efni standa til. Grænland er að verulegu leyti háð fjárstyrkjum Dana en vonast til að nýting náttúruauðlinda greiði fyrir sjálfstæði.

Í Ísalögum er kastljósinu beint að þessu máli. Í sögunni finnst svo mikil olía undan ströndum Grænlands að ágóðinn nægir ekki aðeins til að fjármagna sjálfstæði heldur kippir í leiðinni fótunum undan Parísarsamningum og viðleitni til að minnka losun koltvísýrings í andrúmsloftið.

Talið er að 13% allrar ófundinnar olíu og 30% gass sé að finna undir Norðurheimskautinu, en leit að olíu í grænlenskri lögsögu hefur þó ekki skilað árangri. Olíuvinnsla á Norðurslóðum er verulega umdeild vegna hugsanlegra umhverfisspjalla enda er olíulekinn í Mexíkóflóa árið 2010 mönnum enn í fersku minni.

Sjálfbær ferðamennska

Áhugi Kínverjar á Norðurslóðum hefur framkallað viðbrögð jafnt í Washington sem Brussel og höfuðborgum annara Norðurlanda. Kínversk fyrirtæki hafa til dæmis sýnt áhuga á að fjárfesta í gerð flugvalla á Grænlandi, til dæmis í Nuuk og ferðamannaparadísinni Ilulissat.

En vonir um að glæða ferðaþjónustuna með því að byggja upp innviði gætu verið í uppnámi vegna COVID-19. Grænland hefur enn ekki opnað landamæri sín á ný og enginn þorir að spá um nánustu farmtíð ferðamennsku í heiminum vegna veirunnar.

„Sjálfbær ferðamennska“ var engu að síður eitt þeirra atriða sem Carla Sands sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku nefndi þegar hún tilkynnti um bandaríska efnahagsaðstoð til að ræsa hagkerfi Grænlands þó hún gleymdi vissulega ekki olíu og gasi og sjaldgæfu málmunum.

En í tilkynnngu hennar var vegið að Rússlandi og Kína og markmið aðstoðarinnar sagt að minnka þrýsting á veikburða hemamenn frá þessum tveimur stórveldum. Vladimir V. Barbin sendiherra Rússlands svaraði þessum ummælum og sagði þau síst til þess fallin að draga úr spennu á Norðurslóðum.

 Engir “vígamenn vítis” 

COVID-19, Grænland
Mannrán og mannvíg skyggja á orðaskak diplómata í Ísalögum. Mynd: Óli Magg.

Orðaskak sendiherranna fölnar þó samanborið við vopnaskakið söguþráðinn í Ísalögum þar sem vélsleðar og vélbyssur, mannvíg og mannrán ráða ríkjum auk hefðbundinna blekkinga, ósanninda og undiferlis sem eru ær og kýr alþjóðlegra stjórnmála.

Angu Larsen og ambassadorinn Carla Sand eiga það sameiginlegt að vera þúsundjalasmiðir. Í tilfelli Larsens kemur leiklistin á eftir tónlistarferlinum og daglegra starfa í menningarhúsinu í Nuuk. Sand sendiherra er útlærður hnykkjari sem haslaði sér völl í viðskiptum og stjórnarerindrekstri eftir farsælan leiklistarferil. En hvort framtíð Grænlands verður meira í takt við söguþráð Ísalaga eða þekktustu verka sendiherrans á skjánum; Glæstar vonir (Bold and the Beautiful) eða Dauðahrelli og Vígamenn vítis (Deathstalker and the Warriors from Hell) – mun tíminn leiða í ljós.