COVID-19 olía á eld Gyðingahaturs

0
930
Helför
Gleraugu sem safnað var í Auschwitz Mynd: UNESCO

Einn af óróaseggjunum sem réðust inn í bandaríska þingið á dögunum klæddist íþróttapeysu með áletruninni „Camp Auschwitz” og mynd af hauskúpu og krosslögðum beinum. Þá var ráðist á ísraelskan blaðamann og hann svívirtur fyrir að að vera gyðingur. Alþjóðlegur minningardagur um Helförina og fórnarlömb hennar er haldinn 27.janúar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í ávarpi á myndbandi að gyðingahatur færist í aukana.

„Helförin var hátindur tveggja árþúsunda mismununar, árása, brottrekstra og reglubundinna fjöldamorða sem Gyðingar sættu. Gyðingahatri hefði átt að ljúka með Helförinni. En slíkt varð ekki raunin,” sagði Guterres. „Í dag vex formælendum yfirburða hvíta kynstofnsins ásmeginn og sama máli gegnir um nýnasista. Þeir skipuleggja starf sitt þvert á landamæri og leggja sig fram við að afneita, skrumskæla og endurskrifa söguna þar á meðal Helförina.“

 

Sífellt færri vita um Helförina. 63% ungra Bandaríkjamanna hafa enga hugmynd um hversu margir létu lífið í henni. 47% Þjóðverja svöruðu í skoðanakönnun á síðasta ári að Þýskaland „ætti enga sérstaka sök á henni.“

Okkur ber að snúast til varnar

„Gyðingahatur þar á meðal afneitun og skrumskæling staðreynda um helförina, fer vaxandi í heiminum. Það hefur skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinga, samfélög og lýðræði,“ segir Audrey Azoulay forstjóri UNESCO.

„Með því að segja sögu þessara atburða, eflum við réttlæti. Það gerum við með því að hafna hatursfullum málflutningi Þjóðernisjafnaðarmanna. Okkur ber að snúast til varnar gegn þeim sem hafna helförinni eða reyna að gera glæpi gegn Gyðingum eða öðrum ofsóttum hópum léttvæga. Með þeim hætti vilja þeir blása lífi í kynþáttahatur og gyðingahatur sem olli Helförinni.“

Samkvæmt sænskri rannsókn fólu 35% færslna sem nefndu Gyðinga á samfélagsmiðlum í sér andúð og andgyðinglegar staðalímyndir.

COVID-19 faraldurinn hefur ýtt undir þessa þróun. Mikill vöxtur hefur færst í samsæriskenningar sem fela í sér Gyðingahatur. Margar þeirra eru uppfærðar kenningar byggðar á sögulegum fordæmum. Þá hefur orðræða í mótmælum gegn sóttvarna-tálmunum í kjölfar COVID-19 borið kem af gyðingahatri og öfga-hægrisinnuðum áróðri.

Sameinuðu þjóðirnar minnast helfararinnar

António Guterres aðalframkvæmdastjóri, Azoulay forstjóri UNESCO og  Angela Merkel kanslari Þýskalands munu votta fórnarlömbum ofsókna nasista virðingu sína á viðburði á netinu á Alþjóðlega minningardaginn um Helförina 27.janúar klukkan 17 að íslenskum tíma. Málsmetandi menntamenn munu ræða Helförna í pallborðsumræðum á eftir.  Bein útsending verður á UN Web TV og á samfélagsmiðlum UNESCO.

Þá munu upplýsingaskrifstofur Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg, Brussel og Genf í samstarfi við fastanefndir Ísraels og Albaníu hjá SÞ í Vín sýna á netinu heimildarmyndina the Albanian Code með umræðum á eftir. Hægt er að skrá sig hér.

Sjá einnig ýmsa atburði á vegum UNESCO hér.