COVID-19 Við göngum ekki lengur ein

0
704
Elyx
Listamaðurinn Elyx tekur undir með Frökkum.

Íbúar í mörgum Evrópuríkjum hafa snúið bökum saman sem aldrei fyrr andspænis kórónaveirunni. Í dag hafa 160 útvarpsstöðvar í Evrópu leikið á sama augnabliki samstöðulagið “You´ll never walk alone”. Lagið er best þekkt sem baráttusöngur  sem áhangendur enska knattspyrnuliðsins Liverpool hafa sungið saman á knattspyrnuvellinum. Það er jafn sungið til að stappa í sig stálinu þegar á móti blæs – og til að fagna sigrum.

Frakkar og Belgar voru settir í útgöngubann á eftir Ítölum og Spánverjum. Þeir hafa tekið upp þann sið að fara út á svalir eða að glugga klukkan átta að kveldi. Þar fagna þeir þrekvirkjum heilbrigðisstarfsmanna með klappi og hrópum.

Tónlistin sameinar

Ítalir hafa orðið hvað harðast úti eftir að vágesturinn COVID-19 skaut upp kollinum. Á Ítalíu hafa nágrannar tekið lagið saman út um glugga eða af svölum. Heilu svala-hljómsveitirnar hafa verið stofnaðar. Er þá hver hljóðfæraleikari út af fyrir sig við sinn glugga eða á svölum, en leika saman sjálfum sér og nágrönnum til ánægju og yndisauka.

Spánverjar hafa ekki látið sitt eftir liggja og þar hafa þekktir óperusöngvarar sungið aríur á svölunum, tekið upp flutninginn og hlaðið upp á samskiptamiðla.

Walesbúar eru söngelskir og hafa stofnað facebook-síðuna Cor-ona til að deila song sínum í heimahúsum og eru þátttakendur á öllum aldri frá þriggja ár til níræðs.

Hjálpast að

COVID-19 samstaða
Vörur borna heim til fólks. Macau agency/Unsplash

Þýskaland hefur hingað til sloppið við útgöngubann að itölskum hætti. Þar eru samt mýmörg dæmi um að nágrannar komi til hjálpar þeim sem minna mega sín. Þjóðverjar bjóðast til að kaupa í matinn, passa börn eða fara út að ganga með hunda og nota til þess myllumerkið #Nachbarschaftschallenge.

Sömu sögu er að segja í flestum Vestur-Evrópuríkjum. Í Frakklandi hafa verið stofnaðir hópar, oft á samfélagsmilðlum. Þar er hægt að bjóða fram eða biðja um aðstoð við innkaup, aðhlynningu aldraðra og barna. Að ógleymdum gæludýrum þeirra sem lagðir hafa verið inn á súkrahús.

Börn og ungmenni  í Köln í Þýskalandi hafa stofnað  hópinn“Zusammen gegen Corona” og bjóðast til að sinna börnum heilbrigðisstarfsfólks.

Hvunndagshetjurnar okkar

COVID-19
Ítalir hjálpast að og halda lögboðinni fjarlægð.

Fjölmörg veitingahús verða að beinbeita sér að hemsendingarþjónustu. Í Sarpsborg í suðausturhluta Noregs stóð starfsfólkið frammi fyrir því að sitja uppi með matvæli og ákvað að láta heilsugæsluna njóta góðs af.

Send var risasending á sjúkrahús en ekki nóg með það heldur fylgdu falleg skilaboð til hjúkrunarfólks hlaðbökunum

“Þið eruð hvunndagshetjur okkar,” voru skilaboðin í einum pizzakassanna og í öðrum “þið eruð ómetanleg,” og “á meðan við erum að hugsa um sjálf okkur, eruð þið að hugsa um alla aðra”.

Menningargeirinn í Evrópu hefur orðið fyrir miklum búsifjum enda hefur orðið að fresta eða aflýsa menningarviðburðum um alla álfuna. Ólafur Teitur Guðnason blaðamaður hefur brugðist við því á Íslandi með því að skora á fólk að borga aðgangseyrinn þótt ekkert verði af tónleikum, svo dæmi sé tekið.

Bubbi Morthens leikur og syngur á netinu og sama gera til dæmis margir þekktir þýskir tónlistarmenn sem streyma tónleikum frá heimilum sínum á samskiptamiðlum.

Eftir að tónleikum James Blunt var aflýst í Hamborg lék hann í tómri tónleikahöll og fólk gat setið heima og hlustað ókeypis.  Óperan í París og Staatsoper unter den Linden í Berlín bjóða upp á ókeypis aðgang að óperu-uppsetningum.

Listasöfn láta sitt ekki eftir liggja og boðið er upp á net-heimsókinir í fræg söfn á borð við Louvre og Quai Branly í París og Náttúruvísindasafnið (Museum für Naturkunde) í Berlín og og Monet-sýningu í Museum Barberini. Alls er hægt að skoða 121 þýsk listasöfn á Google Arts & Culture.

Margar áskriftasjónvarpsstöðvar í Evrópou bjóða ókeypis aðgang að útsendingum sínum og sum þýsk tímarit bjóða ókeypis aðgang að vefsíðum sínum. Þá hafa netfyrirtæki víða aukið það magn sem viðskiptavinir geta notað án greiðslu.

Íþróttaviðburðum hefur víða verið frestað. Evrópukeppnum og landsdeildum í knattspyrnum hefur verið frestað og óvíst hvort þráðurinn verður tekinn upp að nýju.

Enska knattspyrnufélagið Liverpool virtist vera búið að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn eftir nærri þriggja áratuga bið þegar mótinu var frestað og hugsanlega verður biðin því enn lengri. En það er þó huggun harmi gegn ef baráttulag félagsins “You´ll never walk alone” verður evrópskur samstöðu-söngur.