Samstaða með ástralskri ekkju

0
654
Húsavik
Húsavík. Nick/https://creativecommons.org/licenses/by-nc-nd/2.0/

Meir en ellefu þúsund manns hafa sýnt ástralskri konu samstöðu sína vegna fráfalls eiginmanns hennar á Húsavík í byrjun vikunnar.

Ástralskur maður lést skömmu eftir að hann kom fárveikur á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. Hann var sýktur af kórónaveikunni COVID-19. Hann hafði þó ekki dæmigerð einkenni og hún ekki talin dánarorsök. Óumdeilt er hins vegar að kona hans var líka sýkt og var hún sett í sóttkví.

Ekkjan þarf því að glíma við sorg sína og erfið veikindi í einangrun. Hún er nánast eins langt frá heimahögum sínum og mögulegt er. Ættingjar eiga vart heimangengt vegna samgönguerfiðleika og þó svo væri yrði lítið um faðmlög vegna samskiptabanns.

Samstaða

Ástralinn sem lést er sagður um fertugt og kona hans nokkrum árum yngri.

Rakel Jónsdóttir gekkst fyrir því að stofna Facebook-síðuna „With love from us“ til þess að Íslendingar gætu sýnt ekkjunni samstöðu og það höfðu tíu þúsund manns gert þegar síðast fréttist.

„Þú ert fjarri heimkynnum þínum og missir þinn er óendanlega mikill,“ skrifaði Rakel

„Við finnum til með þér og við vildum láta þig vita að þú ert ekki ein hér á þessu frosna edlfjalla- og jarðskjálftalandi.“

Hundruð ef ekki þúsundir hafa sett stutt skilaboð á facebook-síðuna, oft skreytt hjörtum og vekur athygli að konur eru í miklum meirihluta.

„Kæra ástalska systir, mér þykir miður að heyra um þennan mikla missi,“ skrifar Helga Davíðsdóttir.

Engin orð

„Engin orð munu vega upp á móti því sem þú hefur tapað, en ég vildi bara að þú vissir að við hugsum til þín og biðjum fyrir þér í þessum hópi. Hjarta mitt og hjörtu allra Íslendinga eru með þér á þessum sorgartíma. Þú ert ekki ein.“

Önnur kóna, Kristín Gísladóttir, sagðist sjálf hafa misst mann sinn nýverið.

„Ég veit að þetta er enn erfiðara fyrir þig af því þú ert í einangrun, ein í útlöndum og enginn til að faðma þig og þurrka tár þín.“

Stjórnandi hópsin, Rakel Jónsdóttir hefur komið á framfæri þökkum áströlsku ekkjunnar sem ekki vill láta nafn síns getið.

„Kæru dásamlegu þið ?Hversu dýrmætt það er að sjá hlýjuna og samkenndina sem þið deilið hér. Fjölskyldan hennar vill koma þakklæti til ykkar frá sínum dýpstu hjartarótum og vill að þið vitið að stuðningur ykkar er ómetanlegur.”