Daninn sem varð fyrsti maður til að heimsækja öll ríki heims – án þess að fljúga

0
112
Thor í lest á Sri Lanka
Margir hafa heimsótt öll lönd heims með aðstoð flugvéla, en Thor er fyrstur til að gera slíkt án flugs og án þess að gera hlé á ferðinni. Hér er Thor á Sri Lanka 2023. Mynd: Mike Douglas.

Danski ævintýrmaðurinn Torbjørn C. Pedersen varð nýlega fyrstur manna til að heimsækja öll ríki veraldar án þess að fljúga. Hann heimsótti öll þessi ríki án þess að gera nokkurt hlé á ferðalaginu, sem stóð yfir í tíu ár.  Verkefnið kallaði Torbjørn eða Thor eins og hann er kallaður Einu sinni var saga.”

 Í upphafi gerði hann ráð fyrir að ferðin tæki fjögur ár. Mörg ljón urðu hins vegar á veginum; vegarbréfsáritanir þurfti, pólitískur órói braust út, að ógleymdum COVID-19 heimsfaraldrinum. Thor er nú á leið heim til Danmerkur og á nú að baki heimsóknir til 195 fullvalda ríkja – og nokkurra umdeildra svæða- án þess að stíga um borð í flugvél.

Einu sinni var Saga hefur verið ótrúlegt ævintýri,“ segir Torbjørn C. Pedersen í viðtali við vefsíðu UNRIC. „Að því sögðu er ég himinlifandi yfir því að hafa nú lagt þetta að baki – og örþreyttur að sama skapi!“

Thor  í Mongólíu.

Thor hefur bakgrunn í flutningageiranum og naut þess við skipulagninguna. Hér er hann í Mongólíu. Mynd: Once upon a saga

Bílar, rútur, lestir, skip og tveir jafnfljótir

Ferðin hófst 2013 í Danmörku og síðan hefur hann ferðast um Evrópu, Suður- og Norður-Ameríku, Afríku, Mið-Austurlönd, Asíu og Kyrrahafið. Farartækin hafa verið bílar, rútur, lestir, skip og jafnvel hestar postulanna. Gámaflutningaskip flutti hann til Male, höfuðborgar Maldives-eyja, en það var tvö hundruð og þriðja og síðasta land sem hann heimsótti í ferðinni. Að því búnu heldur hann heim til Danmerkur að nýju, að sjálfsögðu án þess að fljúga.

„Mig langaði til að gera eitthvað sögulegt og njóta ævintýrisins í leiðinni. Mér reiknaðist til að ef ég dveldi sjö daga að meðaltali í hverju landi myndi ferðin taka mig fjögur ár eða minna,“ segir Thor.

Að vekja fólk til vitundar

Markmiðið var að nota verkefnið til þess að efla málstað friðar, skilnings og menningarlegra samskpta á milli ríkja, auk þess að sýna fegurð og fjölbreytleika heimsins. Hann hefur einnig unnið að því að vekja fólk til vitundar um fátækt, ójöfnuð og loftslagsbreytingar, meðal annars með vinnu sinni í þágu Alþjóða Rauða krossins.

Thor í fjallahéruðum Sri Lanka
Hann var 34 þegar hann lagði af stað og nú hlakkar hann til að snúa aftur heim til Danerkur. Hér er hann á Sri Lanka. Mynd: Mike Douglas.

„Ég hef reynt að koma því á framfæri að fólk um allan heim tekur þátt í fjölskyldulífi, fer í skólann, fer í vinnuna, stundar leiki, elskar íþróttir, hlustar á tónlist, dansar, borðar góðan mat og tekur sjálfur, hangir á samfélagsmiðlum, verður ástfangið, festist í umferðaröngþveyti og kvartar yfir rigningu. Fólk er bara fólk. Ég hef verið opinn fyrir og tekið menningarmun opnum örmum og ég hef fundið eitthvað jákvætt að segfja um hvert einasta ríki heims.”

Eftir allan þann tíma sem hann hefur verið á ferð sjóleiðina, hefur hann skapað sér rútínu til að drepa tímann á löngum ferðum.

„Oftast hef ég verið utan þjónustusvæðis netsins í 2-4 daga,“ útskýrir Thor. „Á meðan er þetta eins og hvert annað frí. Ég horfi á myndir, hlustar á hlaðvörp, les, eða fer í ræktina ef skip býr yfir líkamsræktaraðstöðu. Nú eða hangi í brúnni, spjalla við skipverja og eitthvað álíka.“

Thor í Malasíu
Thor hefur heimsótt mörg ríki sem góðgerðasendiherra danska Rauða krossins til að vekja fólk til vitundar og safna fé. Hann hefur heimsótt Rauða kross félög í 199 af þeim 203 ríkjum þar sem Rauði krossinn og systursamtök eru starfandi. Mynd: Mike Douglas

Finnsk móðir, danskur faðir

Við upphaf ferðar setti Thor sér þrjár meginreglur. 1.) Ekkert flug. 2.) Að minnsta kosti 24 tíma dvöl í hverju landi. 3.) Snúa ekki aftur heim fyrr en öll lönd hefðu verið heimsótt.

Andvirði 20 Bandaríkjadala skyldi duga að meðaltali á dag fyrir ferðum, gistingu, mat og vegabréfsáritunum.

Thor fæddist í Óðinsvéum í Danmörku en fjölskylda hans fluttist fljótlega til Kanada og þaðan til Bandaríkjanna. Móðir hans er finnsk, faðirinn danskur. Þegar hann var sjö ára snéri fjölskyldan aftur til Danmerkur. Hann gegndi herþjónustu í danska hernum og þjónaði í friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna í Erítreu og Eþíópíu. Seinna haslaði hann sér völl í flutningageiranum.

Norræn gildi eru honum mikilvæg.

„Ég er stoltur af upprunanum. Við Norðurlandabúar erum stoltir af heimahögum okkar og Skandinavía er sérstök í huga margra annara fyrir að vera eins konar fyrirmyndar þjóðfélag. Ég er stoltur af því að vera afkomandi Víkinga. Víkingarnir voru frægir fyrir að vera snjallir sæfarar og landkönnuðir. Og það var Danmörku og Norðurlöndunum til heiðurs sem ég nefnfdi verkefnið „Einu sinni var saga.“

“Ég verð frjáls á ný”

Thor segist vera lánsamur að búa yfir aðlögunarhæfni og gerir gott úr aðstæðum sínum hvar sem hann er. Hann er samt kátur yfir því að vera á leið heim til Danmerkur á ný. Hann ætlar að hasla sér völl við að flytja erindi, skrifa og vinnur við að gera heimildarmynd um ferðalagið og á hún að vera tilbúin næsta ár.

„Fólk áttar sig ekki alltaf á því að strangar reglur og metnaður hafa sett mér þröngar skorður í áratug. Nú sný ég heim og verð frjáls maður á ný,“ segir Thor.

Finnland og Danmörk eru honum afar kær og hann kanna að meta fegurð þeirra,  ríkar hefðir, menningu og sögu. Faðir hans býr nú í Danmörku en móðirin í Finnlandi. Þótt hann sé fæddur í Danmörku þykir honum finnski fáninn sá fallegasti í heimi. Finnska brauðið er best og villt opin náttúran. Hann dáir Kaupmannahöfn sem alþjóðlegt hlið Skandinavíu og danska mjólkin er að hans mati best í heimi.

Ónotaður áttaviti

Í lokin var Thor spurður að því hverju hann pakkaði niður í þessa sérstöku ferð.

„Ég pakkaði niður fötum fyrir alla veðráttu, bókum, fartölvu, rafmagnsvörum, köplum, svefnpoka, moskítóneti, hengirúmi, hlaupaskóm, te, reipi, nokkrum hnífum og áttavita. Og  til gamans má geta að Kínverjar gerðu hnífana upptæka 2019 þegar þeir höfðu ferðast með mér til 176 ríkja og ég notaði áttavitann aldrei.”