Dauði Hammarskjöld rannsakaður á ný

0
544

 Hammarskjold219. júlí 2012. Ný rannsókn verður gerð á dauða Svíans Dags Hammarskjöld, þáverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna en hann lést í dularfullu flugslysi árið 1961. Ný gögn hafa kommið fram undanfarið ár á því hvernig dauða Svíans bar að höndum en flugvél með hann innanborðs hrapaði þegar hann reyndi að miðla málum á milli stríðandi fylkinga í Kongó.

Upplýsingar í breska blaðinu the Guardian í ágúst í fyrra og í bók sem kom út mánuði síðar, benda til þess að vélin hafi verið skotin niður. Henni var grandað yfir því landi sem þá hét Norður-Ródesíu en nú Sambía og er fullyrt að breska nýlendustjórnin þar hafi þaggað málið niður. Vestrænir málaliðar eru grunaðir um verknaðinn.

Málsmetandi fólk hefur verið skipað í nýju rannsóknarnefndina en hana leiðir fyrrverandi breskur dómari við áfrýjunardómstólk, Sir Stephen Sedley, en auk hans sitja í nefndinni suður-afrískimaðurinn Richard Goldstone, fyrrverandi aðalsaksóknari við stríðsglæpadómstólinn í Haag, Hans Corell, fyrrverandi yfir-lögfræðingur Sameinuðu þjóðanna og hollenski dómarinn Wilhelmina Thomassen.

Niðurstöður nefndarinnar munu ekki hafa lagalega þýðingu en verða kynntar Sameinuðu þjóðunum. Nefndin er sett á laggirnar eftir forvinnu þriggja manna sem mæltu með ítarlegri rannsókn.

Einn þremenninganna, Lea lávarður frá Crondell segir að í bókinni „Hver drap Hammarskjöld?“ hafi verið leiddar svo sterkar líkur að því að ekki hafi allur sannleikurinn í málinu komið fram, að nauðsynlegt sé að brjóta málið til mergjar á ný.

Meðal verkefna nefndarinnar er að kanna vitnisburð um að vélin hafi “sprungið í loft upp” á flugi og að minni flugvél hafi ráðist á DC-6 vél Hammarskjölds. Þá verður reynt að komast til botns í því hvers vegna það tók opinberlega 15 klukkustundir að finna flak vélarinnar sem þó var aðeins 13 kílómetra frá flugvelli.
Höfundur bókarinanr Susan Williams segir að gögn bendi til þess að flugvél undir stjórn málaliða á snærum uppreisnarmanna í Katanga-héraði í Kongó hafi grandað vél Hammarskjölds. Katanga-uppreisnin naut stuðnings belgískra námaeigenda sem vildu kljúfa héraðið frá Kongó stuttu eftir að landið hafði fengið sjálfstæði frá Belgíu.