Einangrun 48 fátækustu ríkja heims leiðir til “framtíðar sem við höfum ekki efni á,”

0
466
alt

 

Einangrun 48 fátækustu ríkja heims leiðir til “framtíðar sem við höfum ekki efni á,” segir í skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna

Hópur framúrskarandi einstaklinga telur að helmingur minnst þróuðu ríkjanna geti brotist upp úr þeim flokki fyrir 2020

Fréttatilkynning; New York, 29. mars 2011 – Minnst þróuðu ríkin geta brotist út úr áratugagamalli fátæktargildru með einbeittum aðgerðum og alþjóðlegum stuðningi, segir í nýrri skýrslu sem gefin er út í aðdraganda meiriháttar alþjóðlegrar ráðstefnu um stöðu þessara ríkja.

Í skýrslunni er bent á að á sama tíma og veruleg framþróun hefur orðið í mörgum þróunarríkjum, situr hópur minnst þróuðu ríkjanna eftir.

Bent er á að oftast fer saman mikil fátækt og veikt stofnanaumhverfi, annars vegar, og há tíðni átaka, hins vegar: ”Ginnungagapið á milli fátækustu ríkjanna og annara ríkja heimsins er ávísun á framtíð sem við, sem hnattrænt samfélag, höfum ekki efni á.”

altLeitað sér lífsviðurværis á ruslahaug í Timor-Leste.SÞ: mynd:Martine Perret.

Aðgerðir sem nefndin leggur til eru fullnægjandi, forgangsröðuð og markvissari þróunaraðstoð; tolla- og kvótalaus markaðsaðgangur fyrir vörur frá minnst þróuðu ríkjunum; tvöföldun framleiðni í landbúnaði og aðgangs að skólum í þessum ríkjum og stórbæting hæfni ríkisstjórna minnst þróuðu ríkjanna til að efla þróun og lýðræði.

Undirstaða árangurs

Nefndin hvetur einnig til kerfisbundins átaks um samvinnu nágrannaríkja á sex afmörkuðum landsvæðum þar sem Minnst þróuð ríki eru staðsett auk þess að tengja þau saman innbyrðis í sjálfs-hjálpar ríkahópa.

Minnst þróuðu ríkin eru 48 talsins, þar af eru 33 í Afríku sunnan Sahara og á aðliggjandi eyjum. 14 eru í suður Asíu og Eyjaálfu og eitt (Haítí) er í Karíbahafinu.

Í skýrslunni er bent á að með því að auka samruna minnst þróuðu ríkjanna við aðra hluta heimsins er ekki verið að finna upp hjólið á ný heldur hnykkja á núverandi þróun:

• Frá síðustu ráðstefnu um Minnst þróuðu ríkin (Brussel 2001), hafa nær öll þeirra notið öflugs hagvaxtar miðað við höfðatölu auk þess sem þróunaraðstoð hefur aukist verulega.

• Frá 2001 hafa ríkisstjórnir Minnst þróuðu ríkjanna náð árangri í að koma á fót lýðræðislegum stofnunum, aukið hlut kvenna í ríkisstjórn og ýtt úr vör efnahagslegum umbótum og nýju lagaumhverfi.

• Ríkin eru enn of háð útflutningi hráefni en hins vegar gefur umtalsverð hlutdeild þeirra á heimsvísu í mikilvægum jarðefnum, olíu, ræktanlegu landi og vistvænum auðlindum, þeim kjörstöðu til að laða að sér viðskipti og fjárfestingu og góða möguleika á að skjóta fleiri stoðum undir efnahagslífið.

• Efnahagslegur uppgangur þróunarríkjanna í heild hefur skilað árangri í aukinni aðstoð, viðskiptum og fjárfestingum innbyrðis á milli ríkjanna í suðri.

Hópur hinna málsmetandi hefur í ljósi þessa tekið upp á sína arma þema sem einnig hefur verið niðurstaða milliríkja samningaviðræðna um næstu tíu ára aðgerðaáætlun fyrir Minnst þróuðu ríkin. Þar er gert ráð fyrir að helminga fjölda þeirra ríkja sem teljast til hinna minnst þróuðu frá og með 2020. Þetta er talið djarft markmið í ljósi þess að einungis þrjú ríki (Botswana 2994; Grænhöfðaeyjar 2007 og Maldív eyjar 2011) hafa verið útskrifuð úr hópi Minnst þróuðu ríkjanna sem upphaflega voru 51 þegar Sameinuðu þjóðirnar stofnuðu þennan hóp árið 1970.

“Nú er tími til kominn að sýna samstöðu á heimsvísu til að framþróun nái einnig til allra fátækustu ríkjanna en slíkt verður einnig stór áfangi á leiðinni til bjargálna og öryggis í heiminum, “ segir í skýrslunni.

Fjórða ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um Minnst þróuðu ríkin verður haldin 9. til 13. maí í Istanbúl í boði ríkisstjórnar Tyrklands. Cheick Sidi Diarra, sérstakur háttsettur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Minnst þróuðu- og landluktra ríkja er oddviti ráðstefnunnar.

Alpha Oumar Konaré, fyrrverandi forseti Malí og James Wolfensohn, fyrrverandi forseti Alþjóðabankans, stýrðu hópi hinna málsmetandi einstaklinga í sameiningu.

Skýrsluna í heild má nálgast hér: http://www.un.org/wcm/content/site/ldc/home/conference/pid/12904