17. nóvember 2016. Eitt erfiðasta hlutskipti sem hægt er að hugsa sér er að fæðast í Mið-Afríkulýðveldinu.
Hætta er við hvert fótmál á þroskaskeiði barna og unglinga: frá því að lifa af barnasjúkdóma, ganga í skóla, sleppa við þjónustu við vígamenn, og kynferðislegt ofbeldi, svo eitthvað sé nefnt. Heilbrigðiskerfið er að hruni komið, rétt eins og nánast öll opinber þjónusta, sem varð illa úti í ofbeldisöldunni sem gekk yfir landið á árunum 2012-2014. Ofbeldi hefur ekki verið með öllu upprætt þrátt fyrir beitingu alþjóðlegs herafla og lýðræðislegra kosninga fyrr á þessu ári.
Fyrsta þolraunin á æfiskeiðinu er að lifa af fæðingu. Samkvæmt tölum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, deyja 9 af hverjum þúsund konum af barnsförum og eitt barn af hverjum sjö deyr fyrir fimm ára aldur. Þetta er ein hæsta dánartíðni á þessu aldursbili í heiminum.
Af þeim sem lifa til fimm ára aldurs þjást 41% af vannæringu en slíkt hefur varanlegar afleiðingar og skaðar jafnt líkamlegan sem vitsmunalegan þroska. Landið allt glímir við fæðu-óöryggi og börn eru fyrstu fórnarlömbin.
Hundruð þúsunda barna alast upp fjarri heimahögum og hafa bættst í hóp uppflosnaðra, annað hvort innan landamæra ríkisins eða hafa flúið til nágrannaríkjanna. Um hálf milljón íbúa Mið-Afríkulýðveldisins búa utan landamæranna og nærri fjögur hundruð þúsund eru á vergangi innanlands.
Jafnvel áður en síðasta vargöldin gekk í garð gekk aðeins þriðjungur barna í skóla samkvæmt tölum frá 2011-12. Stúlkur ganga sjaldnar í skóla en drengir. Þær sæta of ofbeldi, eru giftar á unga aldri og eignast börn enn á barnsaldri.Nærri þriðjungur stúlkna giftast fyrir fimmtán ára aldur.
Þúsundir barna eru þvingaðar til að þjóna í vígasveitum. 2,679 börn voru þvinguð til slíkrar „herþjónustu“ á síðasta ári að því er fram kemur í skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári.
Mið-Afríkulýðveldið var í síðasta sæti á lista yfir þau lönd þar sem best væri – og verst- að alast upp, sem skrifstofa Breska samveldisins gaf út.
Þetta kemur fram í athyglisverðri grein IRIN, fréttastofu mannúðarmála, þar sem þeirri spurningu er velt upp hvort versti staður í heimi til að alast upp sé Mið-Afríkulýðveldið.
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna veita ríkisstjórn landsins stuðning í viðleitni sinni til að hlúa að ungu kynslóðinni.
Í dag, 17.nóvember hefst í Brussel ráðstefna, sem Evrópusambandið skipuleggur og er ætlunin að safna fé til hjálpar Mið-Afríkulýðveldinu. Sameinuðu þjóðirnar taka þátt í henni og er Jan Eliasson, vara-aðalframkvæmdastjóri fulltrúi þeirra. Forseti landsins, Faustin Archange, mun kynna Landsáætlun um endurreisn og friðaruppbyggingu sem talið er að muni kosta 3 milljarða Bandaríkjadala næstu fimm árin.