Norðurlönd borga helming kostnaðar UNFPA

0
499

LauraLondén newsletter pic resized

2. desember 2016. Laura Londén frá Finnlandi hefur ekki fetað fyrirfram ákveðna braut á starfsferli sínum.

Hún hefur verið hreyfanleg og tekið ýmis hliðarspor; frá Vín og Genf til Mið-Austurlanda og Afríku, en ætíð verið fús til að grípa tækifæri til að láta gott af sér leiða.

Hún starfar nú sem vara-forstjóri Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og var í desember 2015 gefin nafnbótin aðstoðar-framkvæmdastjóri hjá Sameinuðu þjóðunum.

UNFPA 2Laura Londén er Norðurlandabúi mánaðarins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að þessu sinni.

„Ég hef verið mjög lánsöm og oft verið “rétt kona á réttum stað.” Þannig hef ég unnið á vegum Palestínu-flóttamannahjálparinnar (UNRWA), Flóttamannahjálparinnar (UNCHR), Friðargæslusveitanna og Mannfjöldasjóðsins. 

Þegar öllu er á botninn hvolft er það sem heldur mér gangandi, sú von að geta breytt gangi mála og fundið áþreifanlega að ég hafi breytt lífi fólks til hins betra. Fyrir sjálfa mig persónulega skiptir það sköpum að ég finni að ég hafi eitthvað fram að færa, jafnvel í smáum stíl, þar sem sagan gerist.

Ég hef verið allvíða og auðvitað felast í því áskoranir jafnt í einkalífinu sem í vinnu. Það er því alls ekki víst að þetta henti öllum.“ 

Hvað hefur tekið mest á í þínu starfi?

„Það er erfitt að nefna eitt frekar en annað. Það hafa verið erfiðleikar í hverju starfi en alltaf eitthvað nýtt og spennandi líka. 

Það sem ég hef átt erfiðast með er þegar aðstæður hafa, af ýmsum ástæðum, ekki boðið upp á að ná þeim árangri sem ég hefði óskað.“

 
Þú hefur unnið víða td. hjá Flóttamannahjálpinni og með Palestínumönnum og loks nú hjá Mannfjöldasjóðnum. Hversu ólíkir eru þessir vinnustaðir?

UNFPA 1„Ég hef notið þess að vinna á öllum þessum stöðum. Fyrstu tvær stofnanirnar starfa eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst með flóttamönnum „á staðnum.” UNFPA hefur að markmiði, eins og segir svo skýrt í starfslýsingunni : „að tryggja að hver barnsfæðing sé velkomin, hver barnsfæðing sé örugg og að hæfileikar hverrar ungrar manneskju fái notið sín.” Þetta segir allt sem segja þarf. ..

Annað sem ég hef fengið út úr mínu starfi, er að ég hef komist að raun um að verstu tímarnir eru oft bestu tímarnir. Það er að segja að verstu aðstæður kalla oft fram það besta í fólki og stofnunum.”

Hafa Norðurlönd einhverju sérstöku hlutverki að gegna innan Sameinuðu þjóðanna að þínu mati?

„Norðurlönd hafa á löngum tíma orðið kunn og njóta virðingar fyrir gjafmildi og fyrir að virða mannréttindi, alþjóðlegar reglur og staðla, berjast gegn fátækt og efla sjálfbæra þróun um allan heim. …

Áþreifanlegur stuðningur þeirra við UNFPA hefur bjargað mannslífum, og eflt heilsu og lífsviðurværi milljóna kvenna, karla og ungs fólks um allan heim. Þau hafa hjálpað til við að draga úr mæðradauða og sjúkdómum; eflt menntun stúlkna og hjálpað fleiri konum í þróunarríkjum við að öðlast val um hvenær og hve oft þær eignist börn. Árið 2015 greiddu fjögur Norðurlandanna 47.9% af grunnfjárlögum UNFPA, en þetta er minna í ár vegna niðurskurðar í Danmörku og Finnlandi.“

Mynd: Londén (úr einkasafni). Úr starfi UNFPA  UNFPA/Sawiche Wamunza og  UNFPA/Pirilani Semu-Banda