Er það réttlátt að aðeins „fimm stór ríki“ geta beitt neitunarvaldi?

0
732

Fimm stórveldi heimsins gegndu lykilhlutverki við stofnun Sameinuðu þjóðanna. Það voru hin sömu stórveldi sem reyndust vera aðal sigurvegarar síðari heimstyrjaldarinnar. Höfundar sáttmála Sameinuðu þjóðanna gerðu sér í hugarlund að þessar stórþjóðir – Kína, Frakkland, Rússland (upprunalega Sovétríkin), Bretland og Bandaríkin – mundu halda áfram að gegna mikilvægu hlutverki í viðhaldi friðar og öryggis í heiminum. Besta leiðin til að tryggja frið var að láta þessi fimm stórveldi vinna saman með sameiginlegu samkomulagi, sérstaklega ef um var að ræða vandamál er snertu styrjaldir og frið. Þess vegna var það ákveðið að ef eitthvert þessara fimm stórvelda greiddi mótatkvæði í málum sem ekki varða þingsköp, mundi Öryggisráðið ekki geta samþykkt ályktunina. Þetta sérstaka vald sem hinir fimm fastafulltrúar hafa er kallað rétturinn til að „beita neitunarvaldi“.

veto.jpgÍ málum sem varða þingsköp – svo sem að samþykkja dagskrá, boð til aðildarríkja um að taka þátt í umræðum ráðsins, eða samþykkja þingskapareglur – er skorið úr með með atkvæðum níu af fimmtán meðlimum öryggisráðsins. Í þessum málum geta fastafulltrúarnir ekki notfært sér neitunarvaldið.

Á seinni árum hafa margar þjóðir bent á að nauðsynlegt væri að endurskipuleggja og stækka Öryggisráðið. En samt sem áður liggur ekki fyrir neitt samkomulag um hvernig ætti að framkvæma þetta. Sum aðildarríki eru andvíg þeirri hugmynd að leggja niður neitunarvaldið. Aðrar þjóðir vilja takmarka þennan rétt við ákveðnar aðstæður sem ógna heimsfriði. En áður en hægt er að gera nokkrar breytingar af þessu tagi, þyrfti fyrst að breyta Sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Frá því í janúar 1994, hefur vinnuhópur sem Allsherjarþingið skipaði, haft til athugunar tillögur um fjölgun aðila í ráðinu. Nokkur lönd hafa lagt til, að ef aðild að ráðinu ætti að endurspegla stjórnmál og efnahagsmál í heiminum, ættu a.m.k eitt land frá Afríku, eitt frá Asíu og eitt frá Suður-Ameríku að vera meðal nýrra fastafulltrúa. Enn sem komið er hefur ekkert samkomulag náðst um þessar tillögur.