Evróvisjón: Flóttamaður keppir fyrir Svíþjóð

0
721
EBU / ANDRES PUTTING

Sænsk-kongólski söngvarinn Tousin „Tusse” Chiza man tímana tvenna. Hann er fæddur í lýðveldinu Kongó og þurfti að ryðja mörgum hindrunum úr vegi áður en hann komst sem flóttamaður til Svíþjóðar. Nú kemur hann fram fyrir hönd landsins sem skaut yfir hann skjólshúsi í Evróvisjón söngvakeppninni.

EBU / ANDRES PUTTING

Tusse eins og hann er kallaður er aðeins 19 ára gamall. Hann vonast til að feta í fótspor ABBA og svo margra annara sigursælla Svía og vinna keppnina. Lagið sem hann flytur heitir Voices” – Raddir.

Árið 2006 flúðu Tousin Tusse” Chiza átökin í Kongó og varð hann viðskila við foreldra sína á flóttanum. Næstu þrjú árin var hann í flóttamannabúðum í Úganda ásamt frænku sinni. Þegar hann var 8 ára gamall fékk Tusse hæli í Svíþjóð.  

Söngur og tónlist hafa hjálpað honum að yfirvinna þá erfiðleika sem hann hefur þurft að yfirvinna. „Röddin er hluti af mér,“ sagði hann í heimildamyndinni Tusse: Án raddar minnar (Tusse: Without my voice) . „Hún hjálpaði mér að flýja frá erfiðleikum. Hún var griðastaður minn.“

 Reynslubolti í tónlistarkeppnum

EBU / ANDRES PUTTING

 Þrátt fyrir ungan aldur hefur Tusse þegar tekið þátt í söngvakeppnum. Þegar hann var fimmtán ára tók hann þátt í Söngvakeppni Svíþjóðar (”Sweden’s got talent”). Hann sagði sögu sína sem flóttamaður og náði að heilla dómnefndina með því og tónlist sinni.

Hann laut um síðir í lægra haldi í atkvæðagreiðslu, en ári síðar tók hann þátt í sænsku Idol keppninni. Ekkert stöðvaði hann í þetta skipti og hann fór með sigur af hólmi í keppninni 2019.     

Þegar hér var komið við sögu var hann orðinn mjög þekktur fyrir kraftmikinn persónuleika sinn og hæfileika og þótti strax líklegur til að veljast til að keppa fyrir Svíþjóð í Evróvisjón. Hann vann þá atkvæðagreiðslu með yfirburðum.

Engu að síður hefur hann sætt kynþáttaníði. EBU – Evrópusamtök sjóvarpsstöðva- urðu að grípa í taumana eftir að hatursáróðri og kynþáttaníði rigndi yfir Tusse á netinu í aðdraganda keppninnar í þessari viku.  Tusse ætlar ekki að láta þetta á sig fá

  „Slíkt kemur frá fólki sem líður ekki vel. Ég vil einungis að fólk af þessu tagi skilji að það á skilið að líða vel með sjálfu sér,“ sagði hann í viðtali við blaðið Dagens Nyheter. 

  Milljón raddir  

Lagið Voices er ákall til fólks um að sinna hvoru öðru og gefast ekki upp fyrir hatrinu. Allar raddir skipta máli og eiga skilið að heyrast.


 „Þetta er mín leið til að sýna þeim að þau hafi rangt fyrir sér,“ sagði Tusse um boðskap lagsins. „Ég vildi ávarpa þá sem sögðu mér að ég mætti ekki vera sá sem ég er eða klæða mig eins og mér sýnist. Mér stendur nú á sama. Við erum milljón raddir.“  

Tusse er einn þriggja keppenda sem kemur úr röðum flóttamanna. Manizha sem kemur fram fyrir hönd Rússlands og hollenski balletdansarinn Ahmad Joudeh, eru einnig flóttamenn.   

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur lýst ánægju sinni með að þrír keppendur sem hafi bakgrunn sem flóttamenn, taki þátt í Evróvisjón og hefur óskað þeim góðs gengis.