Fjölskyldan gegn sóun

0
458

Selina

8. september 2014. Aðstandendur fjölskylduhátíðarinnar „Saman gegn matarsóun“ segjast ánægðir með góðar undirtektir

. Hátíðin er haldin í tenglsum við orrænt samvinnuverkefni sem miðar að því að minnka sóun á mat á öllum stigum bæði við framleiðslu og neyslu. Fjöldi fyrirtækja, samtaka og frumkvöðla kynntu sínar lausnir og hugmyndir til að vinna gegn matarsóun. Fyrirlesarar á borð við Selina Juul, handhafa Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs og breska baráttumanninn Tristram Stuart fluttu stutt erindi um málefnið, auk þess sem boðið var upp á Smjattpattana og andlitsmálningu fyrir börnin. Þá var boðið upp á súpu úr grænmeti sem ekki kemst á markað frá Sölufélagi Garðyrkjumanna.

„Fjölskylduhátíðin gekk svakalega vel,“ segir Rakel Garðarsdóttir, forsprakki Vakandi. „Ég er alveg fullviss um að vitundarvakning VAKANDI sé að skila árangri. Það sést bæði á fjölmiðlaumfjöllun sem málefnið hefur fengið sem og að við skynjum almennan áhuga víðs vegar. Fáum fjölda fyrirspurnir um að halda fyrirlestra sem og að fólk stöðvar mig útá götu til að þakka mér fyrir að hafa vakið þau til meðvitundar um sóunina.“ Að hátíðinni stóðu Kvenfélagasamband Íslands, Landvernd og Vakandi, en jafnframt veita fjölmargir aðilar hátíðinni stuðning, þar á meðal Norræna ráðherranefndin og Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNRIC).

En Vakandi lætur ekki deigan síga. „Það er margt framundan svo sem bókin Vakandi Veröld – Ástaróður sem Margrét Marteinsdóttir og Rakel Garðarsdóttir unnu í sameiningu. Fyrirlestrar eru framundan sem og vinna við skrif að heimildarmynd um sóun á matvælum og innan fatabransans. Svo að sjálfsögðu að halda áfram að setja inn góð ráð og greinar á fésbókarsíðu VAKANDI sem allir ættu að fylgjast með. Stóru aðgerðirnar felast svo í því að fá ráðuneytið með okkur í baráttuna sem og að efla tengsl VAKANDI erlendis,“ segir Rakel Garðarsdóttir.

Mynd: Selina Juul, oddviti Stop spild af mad er sannkölluð fjölmiðlastjarna í Danmörku og hér er hún í viðtali við Heimi Má Pétursson á Stöð 2.