Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna heimsækir flóttamenn í Darfur

0
443

5. september 2007. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna heimsótti í dag búðir sem hýsa hundruð þúsunda manna sem flosnað hafa upp í Darfur héraði í Súdan. Sagðist hann flytja þeim fyrirheit um “von, frið, öryggi… og vatn.”

Ban hitti einnig að máli leiðtoga fyrirhugaðrar sameiginlegrar friðargæslusveitar Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins.
Í nýrri skýrslu segir Ban að undirbúningur að stofnun friðargæslusveitarinnar gangi vel, en tröllaukin verkefni séu framundan og hernaðarleg framlög aðildarríkjanna verði að liggja fyrir áður en lengra er haldið.   
Í skýrslunni um stofnun sveitarinnar sem kölluð er UNAMID, er bent á að SÞ og Afríkusambandið hafi þegar komið á fót undirbúningssveit í El Fasher, höfuðstað Norður-Darfur en þar munu höfuðstöðvar sveitarinnar verða. 
Á hinn bóginn er bent á að “tröllaukin vandi” blasi við vegna þess hve stórt, afskekkt og fátækt Darfur hérað sé.
 Ban leggur áherslu á að aðildarríki SÞ verði að taka sig taki og leggja fram hið snarasta fram hernaðarleg framlög sín eigi UNAMID að geta sinnt hlutverki sínu. 
Öryggisráðið lagði blessun sína yfir stofnun UNAMID 31. júlí og var í ályktun þess gert ráð fyrir því að 20 þúsund hermenn og 6 þúsund lögreglumenn skipuðu sveitina. Þetta verður stærsta friðargæslusveit heimsins. 
Markmið sveitarinnar er að hindra ofbeldisverk í Darfur þar sem meir en 200 þúsund manns hafa fallið og 2.2 milljónir hafa flúið heimili sín frá árinu 2003 vegna átaka uppreisnarhópa annars vegar og stjórnarhersins og bandamanna hans í Janjaweed vígasveitunum hins vegar