Friðargæslu lýkur á Timor-Leste

0
460

unmithandover
2. janúar 2013. Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna í Timor-Leste lauk hlutverki sínu um áramótin og var lögð niður.

“Íbúar Timor og leiðtogar þess hafa sýnt mikinn kjark við að yfirstíga mikla erfiðleika. Mikið er ógert en um leið eru þetta söguleg tímamót og viðurkenning á því hve mikill árangur hefur náðst,” segir Finn Reske-Nielsen yfirmaður Sameinuðu þjóðanna á Timor-Leste. 

 

Timor-Leste var oftast kallað Austur-Timor á árum áður og háði háð langa og blóðuga sjálfstæðisbaráttu. Málefni Timor-Leste komu fyrst til kasta Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir 37 árum en landið braust til sjálfstæðis frá Indónesíu árið 2002.  

Önnur ofbeldisalda reið yfir árið 2006 en þá stofnaði Öryggisráðið UNMIT sem tók við af fyrri friðargæslu- og pólitískri sendisveit. Hélt friðargæsluliði uppi lögum og reglu þar til lögreglusveitir Timor-Leste höfðu verið settar á stofn og þjálfaðar.  
Á þessum árum hefur lýðræði skotið rótum og á þessu ári hélt Timor-Leste upp á tíu ára sjálfstæði, kaus nýjan forseta og nýtt þing. Kosnignarnar fóru að mestu friðsamlega fram og því ekkert til fyrirstöðu að UNMIT drægi sig í hlé eins og til stóð. Öryggisráðið ályktaði nýlega um “einstakan árangur” þessar litlu Austur-Asíu þjóðar

“Þegar ég kom fyrst til Timor-Leste 1999 var allt í kaldakoli; blóðug átök höfðu geisað og miklar pólitískar væringar; fólk hafði þjáðst mjög mikið,” segir Reske-Nielsen. “Það hafa verið forréttindi að fylgjast með hvernig Timor-Leste hefur unnið sig út úr erfiðleikum og þokast í átt til friðar, stöðugleika og bjartari, öruggari framtíðar.”
Flestir friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna hafa þegar kvatt Timor-Leste en fámennt teymi verður þar áfram fyrstu mánuði ársins til að ljúka starfseminni.

Mynd: Heimamenn taka formlega við löggæslu af Sameinuðu þjóðunum á Timor-Leste. SÞ/Martine Perret