Fyrra stríð: Gleymdur örlagavaldur

0
641

Þorvaldur 

Maí 2014. Tugir þúsunda hvítra legsteina breiða sig yfir iðjagrænar sveitirnar í kringum borgina Ypres í suð-vestur Belgíu.

Margir þekkja nafn þessarar flæmsku borgar úr ljóði Bandaríkjamannsins Carls Sandburg, sem nokkur íslensk ljóðskáld hafa spreytt sig á að þýða. „Og hlaðið þér líkunum hátt við Gettysburg/ og hrúgið þeim í kös hjá Verdun og Ypres,“ segir í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. „Ég er gras, ég græ yfir allt.“ Sandburg reyndist þó ekki sannspár um að valkestir við „Waterloo og Austerlitz“ yrðu gleymskunni að bráð og ekki heldur vígvellir fyrri heimsstyrjaldarinnar því upphafs hennar fyrir einni öld er nú minnst um allan heim.

Síðasta daginn í hinum alræmda bardaga um Passchendaele, nærri Ypres, lést óbreyttur hermaður í 223.kanadísku hersveitinni. Hann var einn 850 þúsund hermanna bandamanna og Þjóðverjar sem létust í fjögurra ára átökum um yfirráð yfir Ypres.

Kanadamaðurinn hét Sigurbjörn Jóhannesson,og var einn fjölmargra Kanada- og Bandaríkjamanna af norrænum uppruna sem börðust – oft sem sjálfboðaliðar- með herjum norður-amerísku ríkjanna tveggja. Mörg norræn nöfn má sjá á legsteinum og minnisvarðanum um þá sem hurfu á Menin hliðinu íYpres. 144 af þeim 1245 kanadísku og bandarísku hermönnum af íslenskum uppruna sem börðust í stríðinu, snéru ekki heim aftur. Margir af þeim voru fæddir á Íslandi eins og Sigurbjörn sem fæddist 18.október 1872 í Pálsseli í Laxárdal í Dalasýslu.

Í ár er þess minnst að friður hefur ríkt á milli Norðurlandanna í 200 ár og þess minnst í okkar heimshluta til jafns við upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar. Síðari heimsstyrjöldin skipti slíkum sköpum í sögu Norðurlanda að sú fyrri vill stundum nánast gleymast.
Hermenn börðust að vísu ekki undir fána sins eigin lands en þó tók fjöldi manna sem fæddir voru á Norðurlöndum þátt í fyrri heimsstyrjöldinni. Þúsundir létust beint eða óbeint af völdum hildarleiksins.

Norðurlandabúar börðust beggja megin víglínunnar. 30 þúsund Danir frá norðurhluta Slésvíkur voru kallaðir í þýska herinn. 5 þúsund þeirra létust. Margir flúðu til Danmerkur til að forðast að vera kallaðir í herinn. 275 dönskum kaupskipum var sökkt og 700 danskir sjómenn létust.
Norðmaður gat sér gott orð í frönsku útlendingaherdeildinni og Angman, sænskur höfuðsmaður barðist með herjum Ottómana í Persíu og sætti pyntingum eftir að hafa fallið í hendur liðsveita hliðhollum Rússum. Svíar voru hlutlausir eins og hin Norðurlöndin og urðu ekki fyrir mestum skakkaföllum vegna vopnaviðskipta heldur matarskorts af völdum hafnbannsins.

Noregur átti að heita hlutlaust ríki en landið var stundum kallað hlutlausi bandamaðurinn” vegna þess hversu mjög kaupskipaflottinn gagnaðist bandamönnum. Helmingur norska flotans hvarf í djúpið í heimsstyrjöldi , oftast eftir árásir þýskra kafbáta og 2 þúsund sjómenn létu lífið. Hlutlausu Norðurlöndin urðu ekki fyrir reiðarslagi á borð við innrás og hersetu Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni en engu að síður markaði fyrri heimsstyrjöldin djúp spor í söguna. Finnland var enn hluti af Rússaveldi og finnskir liðsforingjar voru í her Rússakeisara, eins og til dæmis Mannerheim tilvonandi Sjálfstæðisfhetja. Þegar mest var, var hundrað þúsund manns rússneskt setulið í landinu í þeim tilgangi að hindra að Þjóðverjar notuðu Finnland sem stökkpall til árásar á Rússland.

Októberbyltingin réði úrslitum í finnskri sögu og í kjölfarið eða í desember 1917 lýsti Finnland yfir sjálfstæði. Þá hófst blóðugt borgarastríð á milli “Hvítliða” og “Rauðliða”. Bolsévikar studdu sína menn en Þjóðverjar komu hvítliðum til hjálpar og svo fór að þeir hertóku Helsinki í apríl 1918. Sjálfstæði Finnlands var innsiglað í Versalasamningunum 1919. Í kjölfar sigurs bandamanna endurheimtu Danir Norður-Slésvik (suður-Jótland) og fullveldi Íslands innan danska konungsríkisins var svo samþykkt 1918.Hlutleysið bjargaði lífi margra norrænna hermanna. Stríði greiddi hins vegar fyrir útbreiðslu spænsku veikinnar – óvinar sem kærði sig kollótta um þjóðerni og fleiri féllu fyrir farsóttinni en vopnum jafnta á Norðurlöndum sem annars staðar. Talið er að 3-6% af jarðarbúum hafi látist í spænsku veikinni.

Sjá: Dóu Vestur-Íslendingar í skotgröfum fyrri heimstyrjaldarinnar? http://www.visindavefur.is/svar.php?id=21422

Minningarbók íslenzkra hermanna 1914-1918, 1923. 

Matthías G. Pálsson: Íslensk bein í franskri mold, Morgunblaðið 5.september 2010. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1347438/

 Ljósmyndina tók Matthías G. Pálsson af í herkirkjugarði í Etables í Norður Frakklandi.

(ÚR Norræna Fréttabréfi UNRIC, maí 2014)