Getur haft hrikalegar afleiðingar að frysta framlög til UNRWA, segja stofnanir Sameinuðu þjóðanna

0
96
Matvælum úthlutað í Deir Al-Balah á Gasa.
Matvælum úthlutað í Deir Al-Balah á Gasa. Mynd: UNRWA

Gasasvæðið. Hópur fimmtán forstöðumanna stofnana Sameinuðu þjóðanna og tveggja annarra hjálparstofnana hafa gefið út sameiginlegt ákall þar sem þeir hvetja ríki sem hafa stöðvað að minnsta kosti tímabundið framlög til UNRWA um að endurskoða afstöðu sína. 

„Ásakanir á hendur nokkrum starfsmönnum UNRWA í hræðilegum árásum á Ísrael 7.október eru ógnvekjandi. Eins og aðalframkvæmdastjórinn hefur sagt mun hver sá starfsmaður Sameinuðu þjóðanna sem gerist sekur um þátttöku í hryðjuverkum vera dreginn til ábyrgðar. Hins vegar má ekki, af þeim sökum, koma í veg fyrir að heil stofnun sinni því hlutverki sínu að koma fólki í hræðilegri neyð til hjálpar,“ segir í yfirlýsingu nefndar sem stillir saman strengi í mannúðarmálum innan raða  Sameinuðu þjóðanna.

Matvælum komið til nauðstaddra í skóla UNRWA sem hýsir uppflosnaða Gasabúa.
Matvælum komið til nauðstaddra í skóla UNRWA sem hýsir uppflosnaða Gasabúa. Mynd: UNRWA

Á meðal þeirra sem standa að yfirlýsingunni eru forstöðumenn Samræmingarskrifstofu mannúðarmála (OCHA), Flóttamannahjálparinnar (UNHCR), Matvælaáætlunarinnar (WFP) og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Tímabundin stöðvun hefur hrikalegar afleiðingar

„Ákvarðanir ýmissa aðildarríkja um að stöðva tímabundið framlög til UNRWA mun hafa hrikalegar afleiðingar fyrir íbúa Gasa. Engin önnur stofnun hefur úrræði til að koma aðstoð til skila í líkingu við það sem þarf til að hjálpa þeim 2.2 milljónum Gasabúa, sem búa við átakanlega neyð,“ segir í yfirlýsingunni.

„Að halda eftir framlögum við UNRWA er hættulegt og kann að valda hruni mannúðarkerfisins á Gasa. Afleiðingarnar fyrir mannúðaraðstoð og mannréttindi gætu orðið víðtækar á herteknum palestínskum svæðum og um allan heimshlutann. Heimurinn má ekki snúa baki við íbúum Gasa.“

Sigrid Kaag samræmandi mannúðaraðstoðar SÞ á Gasa flutti Öryggisráðinu skýrslu. Mynd: UN Photo/Manuel Elías
Sigrid Kaag samræmandi mannúðaraðstoðar SÞ á Gasa flutti Öryggisráðinu skýrslu. Mynd: UN Photo/Manuel Elías

Ekkert kemur í stað UNRWA

Sigrid Kaag samræmandi mannúðarmála Sameinuðu þjóðanna á Gasasvæðinu kynnti Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna ástandið á Gasa í gær. Hún sagði á fundi með fréttamönnum að einungis Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna gæti breytt stöðu UNRWA. „Það er útilokað að önnur stofnun geti komið í stað UNRWA, sökum hæfnis stofnunarinnar, getu og þekkingar.“

Starf UNRWA er í hættu eftir að mörg ríki sem stutt hafa stofnunina fjárhagslega hafa fryst framlög. Þeirra á meðal eru Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Japan og þrjú Norðurlandanna, nú síðast Svíþjóð.  Stofnunin hefur haft frumkvæði að rannsókn á málinu og vikið þeim frá störfum sem sæta ásökunum. Að auki var tilkynnt um miðjan janúar um allsherjarúttekt á starfi UNRWA, áður en ásakanir á hendur starfsmönnunum litu dagsins ljós.