Guterres: “Flóðbylgja hatursorðræðu” hefur fylgt COVID-19

0
608
COVID-19, hatursáróður
António Guterres tekur upp ávarp. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að COVID-19 faraldurinn hafi haft í för með sér flóðbylgju hatursorðræðu og útlendingahaturs. „Við verðum að grípa nú þegar til aðgerða til að efla ónæmiskerfi samfélagsins gegn hatursveirunni. Þess vegna hvet ég til þess í dag að gripið verði til aðgerða á öllum vígstöðvum gegn hatursorðræðu á heimsvísu,“ segir Guterres í ávarpi sem tekið var upp á myndband.

„Við þurfum á allri þeirri samstöðu sem möguleg er til að takast á við veiruna í sameiningu. En því miður heldur faraldurinn áfram að ýta af stað flóðbylgju hatursáróðurs og útlendingahaturs,“ bætti aðalframkvæmdastjórinn við.

Andúð á útlendingum

Hann benti á að andúð á útlendingum hefði blossað upp jafnt á netinu sem götum úti; að samsæriskenningum um gyðinga hefði verið dreift, og dæmi væri um árásir á múslima í tengslum við COVID-19. Þar að auki hefði farand- og flóttafólk verið gert að blórabögglum fyrir að dreifa veirunni og síðan neitað um læknishjálp.

Í ávarpi sínu hvatti aðalframkvæmdastjórinn stjórnmálaleiðtoga til að sýna samstöðu með öllum hlutum samfélagsins og eggjaði menntastofnanir til að efla stafrænt læsi. Þá beindi hann orðum sínum sérstaklega til fjölmiðla, sérstaklega samfélagsmiðla og biðlaði til þeirra um að gera miklu meira til að benda á og fjarlægja kynþátta- og kvenhatur og annað skaðlegt efni.

„Og ég bið alla, alls staðar um að rísa upp gegn hvers kyns hatri, koma fram við aðra af virðingu og nota hvert tækifæri til að sýna góðvild,” sagði Guterres. „Sigrumst á hatursorðræðu og COVID-19 – í sameiningu.“