Guterres: Fólk í fyrirrúmi ekki skrifræði

0
528
GuteresoahtABC

GuteresoahtABC
13.desember 2016. António Guterres, sagði að Sameinuðu þjóðunum bæri að einbeita sér að framkvæmdum í stað ferla, og setja fólk í fyrirrúm á kostnað skriffinnsku, þegar hann sór embættiseið sinn sem níundi aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á fundi Allsherjarþings samtakanna í gær.

Guterres, flutti ræðu þar sem hann tíundaði áherslur sínar í starfi; að vinna að friði, efla sjálfbæra þróun og bæta innri stjórn.
Hann hét því að beita sér persónulega til að miðla málum í styrjaldarátökum og deilum en benti einnig á að Sameinuðu þjóðunum væri falin friðargæsla þar sem enginn friður ríkti og sagði að skerpa þyrfti hugsunina að baki friðarstarfinu.

„Það er kominn tími til að við einhendum okkur í heildstæða endurskoðun á áætlunum Sameinuðu þjóðanna, starfinu á vettvangi og uppbyggingu friðar og öryggis,“ sagði hann.

Guterres oath 1Guterres sagði að þróun yrði miðlæg í starfi samtakanna og að hann myndi beita sér fyrir umbótum á þróunarstarfinu, bæði í aðalstöðvunum og í hverju ríki fyrir sig.

„Mannúðarstarf, sjálfbær þróun og að friðarviðleitni eru þrjár hliðar á sama þríhyrningi,“ sagði hann.

Guterres gerði innri stjórnun samtakanna að umræðuefni. „Reglur Sameinuðu þjóðanna um mál starfsmanna og fjárveitinga eru stundum með þeim hætti, að það læðist að manni sá grunur að í sumum tilfellum sé þeim ætlað að hindra en ekki að greiða fyrir að samtökin sinni þeim störfum af skilvirkni, sem þeim eru falin,“ sagði hann og bætti við „Það er engum í hag að það taki níu mánuði að ráða fólk til starfa á vettvangi.“

Þá lagði hann áherslu á að það ætti að vera sjálfsagður hlutur að gjalda reikningsskil og að vernda uppljóstrara með fullnægjandi hætti.

Enn benti hann á að Sameinuðu þjóðirnar yrðu að bæta almannatengsl sín, þannig að fólk skildi um hvað starf þeirra snérist.

Hann lagði áherslu á jafnrétti kynjanna. „Þegar kjörtímabili mínu lýkur mun verða fullkomið jafnvægi á milli kynjanna í æðstu stöðum þar á meðal í framkvæmdastjóra- og aðstoðarframkvæmdastjórastöðum, þar á meðal í embættum sérstakra fulltrúa og erindreka.“

Áður en Guterres sór embættiseið, heiðraði Allsherjarþingið sérstaklega fráfarandi aðalframkvæmdastjóra Ban Ki-moon sem lætur af embætti um áramótin eftir tíu ár í starfi.