Guterres gestur Norðurlandaráðs

0
649
Norðurlandaráð
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að máli 11.mars 2019. Mynd: UN Photo / Mark Garten
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna verður gestur Norðurlandaráðs 27. október. Greinir hann fulltrúum ráðsins þá frá sýn sinni á kreppuna af völdum covid-19. Norrænu forsætisráðherrarnir og oddvitar sjálfsstjórnanna taka einnig þátt í fundinum. Fjallað verður um faraldurinn bæði frá sjónarhóli alls heimsins og Norðurlandanna. Viðburðurinn verður sendur út beint á netinu.

Fundurinn með António Guterres er liður í þingviku Norðurlandaráðs sem haldinn verður í þeirri viku sem ráðið hefði haldið árlegt þing sitt undir venjulegum kringumstæðum. Hefðbundnu þingi hefur verið aflýst í ár vegna faraldursins.

Málefni fundarins með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna er kreppan af völdum covid-19 og þær áskoranir sem blasa við heimsbyggðinni. Guterres flytur framsögu þar sem hann greinir frá sýn sinni á faraldurinn og í kjölfarið gefst flokkahópunum tækifæri til þess að beina til hans spurningum.

Kreppur krefjast samstarfs

Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs hlakkar til þess að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna verði gestur fundarins.

„Við bjóðum aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hjartanlega velkominn á þingviku Norðurlandaráðs. Það verður ótrúlega áhugavert að heyra af sýn António Guterres á alþjóðlegt samstarf í baráttunni gegn covid-19. Þetta er barátta sem við vinnum ekki ein og sér heldur með sameiginlegu átaki og samstarfi, bæði á Norðurlöndum og á heimsvísu. Við viljum að Sameinuðu þjóðirnar gegni ríku hlutverki þegar kemur að alþjóðlegum kreppum. Norðurlöndin eru afar hlynnt heimsskipulagi sem byggir á lögum og rétti og að Sameinuðu þjóðirnar séu sterkt afl,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir.

António Guterres var boðið á þingviku Norðurandaráðs í tilefni þess að á þessu ári er því fagnað að 75 ár eru liðin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, standa að boðinu. Ísland fer með formennsku í Norðurlandaráði á þessu ári.

Fylgist með fundinum í beinni útsendingu á netinu

Á fundinum sem stendur 1,5 klukkutíma mun Norðurlandaráð ásamt forsætisráðherrunum og oddvitum sjálfstjórnanna einnig ræða covid-19 frá norrænum sjónarhóli. Þetta verður í fyrsta sinn sem norrænir þingmenn og forsætisráðherrar koma saman til að ræða covid-19.

Norðurlöndin hafa farið ólíkar leiðir í baráttunni við faraldurinn sem hefur meðal annars leitt til landamæraeftirlits og takmarkana á frjálsri för á Norðurlöndum en þetta er einmitt kjarninn í norrænu samstarfi.

Öllum fundinum verður streymt þriðjudaginn 27. október klukkan 17.00–18.30 á norden.org.