Guterres hvetur til banns við notkun gervigreindarstýrðra vopna

0
69
Sameinuðu þjóðirnar vega og meta nýtingu gervigreindar.
Sameinuðu þjóðirnar vega og meta nýtingu gervigreindar. Mynd: © Unsplash/Steve Johnson

Gervigreind. Sameinuðu þjóðirnar. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt til þess að lagt verði bann við notkun vopna, sem stýrt er af gervigreind.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til ábyrgrar stjórnunar gervigreindar í heiminum í ávarpi á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann lagði áherslu á að notkun gervigreindar í netárásum, útbreiðslu rangra upplýsinga og hatursorðræðu gæti haft alvarlegar afleiðingar.

Guterres ávarpar fund Öryggisráðsins um gervigreind.
Guterres ávarpar fund Öryggisráðsins um gervigreind. © UN Photo/Eskinder Debebe

Í ávarpi sínu benti Guterres á alvarlega misnotkun samfélagsmiðla, sem hefðu upphaflega haft það að markmiði að leiða fólk saman. Nú væru þeir notaðir til að grafa undan kosningum og ýta undir ofbeldi. Þá væri skörun gervigreindar við kjarnorkuvopn, líftækni og sjálfvirkni áhyggjuefni.

Reynsla SÞ

Hann sagði þýðingarmikið að nálgast verkefnið á alheimsvísu. Hann minnti á reynslu Sameinuðu þjóðanna af setningu reglna, gerð sáttmála og uppsetningu stofnana sem hefðu komið böndum á nýtingu tækni. Hér nefndi hann sérstaklega viðræður um siðfræði gervigreindar og grundvallarsjónarmið banvænna sjálfstæðra vopnakerfa.

Doreen Bogdan-Martin forstjóri Alþjóðlegu fjarskiptastofnunarinnar kynnir sér vélmenni á ráðstefnu um gervigreind í almannaþágu í Genf.
Doreen Bogdan-Martin forstjóri Alþjóðlegu fjarskiptastofnunarinnar kynnir sér vélmenni á ráðstefnu um gervigreind í almannaþágu í Genf. Mynd: © ITU/D.Woldu

Guterres fagnaði sérstaklega að haldin hefði verið ráðstefnu um jákvæða nýtingu gervigreindar (AI for Good summit) en þar var stefnt saman sérfræðingum, einkageiranum, stofnunum Sameinuðu þjóðanna og ríkisstjórnum í viðleitni til að tryggja að gervigreind sé nýtt í almannaþágu. Hins vegar viðurkenndi hann að víða væri skortur á þekkingu, og á því þyrfti að vinna bug bæði á lands- og alþjóðlegum vettvangi.

Hann lagði til nýja einingu innan Sameinuðu þjóðanna til að sinna þessu málefni. Nota mætti Alþjóða kjarnorkumálstofnunina eða Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem fyrirmynd. Slíkri einingu væri ætlað að safna sérfræðilegum upplýsingum og greiða fyrir samvinnu um gervigreindarrtól, sem nýt mætti til að hraða framkvæmd Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun.

Bann við gervigreindarvopnum

 Guterres skýrði einnig frá áætlunum um fund háttsettra fulltrúa um gervigreind. Ætlunin væri að þeir snéru aftur með samanteki um hvaða kostir væri um alheimsstjórnun fyrir árslok. Þá hyggst hann gefa út “Nýja áætlun um frið”, með ráðleggingum um gervigreind til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna.

Hvatt verður til viðræðna um lagalega bindandi sáttmála um að banna notkun sjálfstæðra vopnakerfa, þar sem mannshugur kemur ekki nærri, í því skyni að tryggja að alþjóðleg mannúðarlög séu virt.

Fundur Öryggisráðsins um ógn gervigreindar við alþjóðlegan frið og öryggi var haldinn að frumkvæði Breta sem sitja í forsæti ráðsins í júlímánuði .