Sameinuðu þjóðirnar segja að litið sé til ESB um forystu

0
76
Guterres og Ursula von der Leyen oddviti framkvæmdastjórnar ESB.
Guterres og Ursula von der Leyen oddviti framkvæmdastjórnar ESB. Mynd: Miranda Alexander-Webber/UNRIC

Sameinuðu þjóðirnar. Evrópusambandið. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst þakklæti sínu í garð Evrópusambandsins fyrir framlag þess „til viðleitni okkar frá loftslagsaðgerðum til sjálfbærrar þróunar, friði og öryggi til mannréttinda og jafnréttis kynjanna.“

Guterres situr nú annan árlegan fund háttsettra forystumanna Sameinuðu þjóðanna og ESB í Brussel. Á fundi með blaðamönnum lagði hann áherslu á nauðsyn milliríkjasamvinnu til að takast á við hnattrænar áskoranir, þar á meðal loftslagsbreytingar, átök og efnahagslega endurreisn eftir heimsfaraldurinn.

Blaðamannafundur Guterres og von der Leyen.
Blaðamannafundur Guterres og von der Leyen. Mynd: Miranda Alexander-Webber/UNRIC

„Innrás Rússa í Úkraína hefur skekið þennan heimshluta og allan heiminn,“ sagði Guterres. „Loftslagsbreytingar valda þeim ríkjum mestum skakkaföllum, sem minnsta sök bera á þeim. Fjöldi fólks, sem er á flótta undan átökum, ofsóknum og fátækt, er látið deyja drottni sínum,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn. Hann sagði að milliríkjasamvinna væri þýðingarmikil í að glíma við slíkt hættuástand.

Hann benti á hve mislangt efnahagsleg endurreisn eftir COVID-19 faraldurinn væri komin í heiminum. Slíkt væri olía á eld vantrausts, sérstaklega á milli vestrænna ríkja og ríkja á suðurhveli. Hann hvatti til endurskipulagningu alþjóðlega fjármálakerfisins til að bjarga Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.

Loftslagssamstöðu er þörf

Hann ítrekaði hvatningu sína um Alheims loftslagssamstöðusáttmála og eggjaði auðug ríki til að leggja fram fé og úrræði til þess að nýþróuð ríki geti skorið niður losun á gróðurhúsa-lofttegundum, til að hlýnun jarðar haldist inn við 1.5°C. Hann fagnaði stuðningi Evrópusambandsins við þessa viðleitni.

Aðalframkvæmdastjórinn lagði einnig áherslu á alþjóðlegar aðgerðir á sviði nýrrar tækni, þar á meðal gervigreind. Hvatti hann til sameiginlegs eftirlits og stjórnun til að tryggja að þessi tæknivæðing þjónaði mannkyninu og sameiginlegum gæðum.

„Heimurinn lítur til Evrópusambandsins um forystu,“ bætti hann við.

Forystumenn Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins.
Forystumenn Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins. Mynd: Miranda Alexander-Webber/UNRIC

Samráð ESB og SÞ

António Guterres og sendinefnd embættismanna Sameinuðu þjóðanna taka nú þátt í öðrum samráðsfundi samtakanna og ESB. Ákveðið hefur verið að þetta verði árlegur viðburður sem sýnir mikilvægi samstarfs þessara aðila.

Á dagskrá eru málefni á borð við loftslagsaðgerðir, friður og öryggi, stafræn umbreyting, framkvæmd Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og umbætur á alþjóðlegum fjármálastofnunum.