Guterres hvetur til „endurræsingar“ 2021

0
699

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til djarfra aðgerða til að sigrast á eyðileggingu af völdum COVID-19, aðgerðarleysis í loftslagsmálum og auknum ójöfnuð. Jafnframt hvetur hann til þess að enfahagslegt endurreisnarstarf verði með hag allra í huga.

Í árlegu ávarpi sínu til Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í dag 28.janúar, lýsti Guterres þeirri hættu sem stafaði að heiminum og varaði við afleiðingum þess að vinna ekki saman.

Annus horribilis

„2020 var sannkallað  annus horribilis – ár dauða, hörmunga og angistar,” sagði aðalframkvæmdastjórinn og dró upp dökka mynd af árinu. 2 milljónir manna létust á árinu af völdum COVID-19.

Að sögn hans „færði 2020 okkar harmleik og hættu. 2021 ber okkur að skipta um gír og koma heiminum á réttan stað. Við þurfum að snúa baki við dauðanum og efla heilbrigði. Snúa upplausn í uppbyggingu, og breyta angist í von. Og kyrrstöðu í umbyltingu,“ sagði Guterres í ræðu á Allsherjarþinginu.

Aðalframkvæmdastjórinn rakti tíu atriði sem hann sagði að yrðu forgangsatriði á árinu. Þeim væri ætlað að auka vonir og möguleika fólks um allan heim. Þar bæri hæst að tryggja jafnan aðgang að COVID-19 bóluefni á viðráðanlegu verði. Í öðru lagi að stefna að sjálfbærri endurreisn fyrir alla.

Bóluefnið er siðferðileg prófraun

„Bóluefnið er siðferðileg prófraun sem við göngumst undir,“ sagði Guterres. „Vísindin hafa skilað árangri en samstaða er að bresta,“ sagði hann og hvatti til að sex skref yrðu stigin til að setja heilbrigði í öndvegi, hlúa að áhættuhópum og efla framleiðslu bóluefnis.

Guterres lagði áherslu á nauðsyn þes að fjárfesta í heilbrigðisþjónustu fyrir alla, geðheilbrigðiskerfi, félagslegri vernd og sómasamlegri vinnu. Hann hvatti lika til skulda-uppgjafar og að endurreisn þyrfti að hefjast strax. Heimurinn gæti ekki læknað sig af veirunni ef hagkerfð væri í öndunarvél.

Loftslagsbreytingar í fyrsta sæti

Þau átta forgangsatriði sem eftir eru á lista aðalframkvæmastjórans eru fyrst og fremst baráttan gegn loftslagsbreytingum og hruni fjölbreytni lífríkisins. Í annan stað viðnám gegn aukningu ójöfnuðar og árásum á mannréttindi. Efla ber jafnrétti kynjanna; bera klæði á vopnin í stórveldadeilum, verja unna sigra í kjarnorkuafvopnun og stöðva útbreiðslu kjarnorkuvopna. Þá þarf að færa sér í nyt stafræna tækni á sama tíma og þörf er að verjast ókostum hennar. Loks ber að “endurræsa fyrir 21.öldina.”

Loftslagsbreytingarnar eru þyngstar á metunum og Guterres ítrekaði nauðsyn þess að fylkja liði um það markmið að ná kolefnisjafnvægi fyrir 2050 í aðdraganda COP26 loftslagsráðstefnunnar í Glasgow síðar á árinu. Þá hvatti Gtuterres ríki til að senda frá sér metnaðarfull Landsmarkmið (Nationally Determined Contributions) í loftslagsmálum og stíga tímamótaskref í aðlögun að loftslagsbreytingum.