Guterres: Núverandi alþjóðaregla „þjónar engum“

0
6
Guterres ávarpar öryggismálaráðstefnuna.
Guterres ávarpar öryggismálaráðstefnuna. Mynd: Stephanie Tremblay

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til friðar og umbóta á núverandi alþjóðareglu í opnunarræðu árlegu öryggisráðstefnunnar í München.

Guterres lagði út frá yfirskrift ráðstefnunnar um að núverandi skipulag alþjóðamála þjónaði ekki öllum. „Ég myndi reyndar ganga lengra og segja að þjónaði engum.“

Hann dró upp dökka mynd af þeim tilvistarvanda sem heimurinn stæði frammi fyrir. Samfélag þjóða væri sundraðra en nokkru sinn fyrr undanfarin 75 ár.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti til friðar og umbóta á núverandi alþjóðareglu í opnunarræðu árlegu öryggisráðstefnunnar í München. Mynd: Stephanie Tremblay/UN

„Í dag sjáum við ríki haga sér eins og þeim sýnist án þess að sæta neinni ábyrgð.“

Hann benti á niðurstöður nýrrar skýrslu á vegum Münchenar-ráðstefnunnar um öryggismál. Þar kæmi skýrt fram að hlutfallslegur ávinnningur í samkeppni einstakra ríkja væri tekinn fram fyrir hreinan hagnað allra.

Vandamálum og alþjóðlegum kreppum færi fjölgandi, sem tengdust samkeppni og refsileysi, sagði Guterres.

Ef alþjóðleg regla ætti að þjóna öllum, bæri að taka á þessum göllum og koma með lausnir.

„Ef ríki fylgdu ákvæðum Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, gæti hver einasti jarðarbúi lifað í friði og með reisn.“

Átökin í Mið-Austurlöndum

 Að mati aðalframkvæmdastjórans, er ástandið á Gasasvæðinu áfellisdómur yfir þráteflinu í alþjóðlegum samskiptum.

Guterres sagði ekkert geta réttlætt árásir Hamas 7.október, en að sama skapi réttlæti ekkert sameiginlega refsingu allra Palestínumanna.

Hann varaði sérstaklega við allsherjarárás á borgina Rafah. Palestínskir óbreyttir borgarar sem þar hefðu leitað skjóls væru komnir á ystu nef í baráttu sinni fyrir lífi sínu

Guterres gerði sérstaklega að umræðuefni nýja áætlun um frið sem lögð verður fyrir leiðtogafund framtíðarinnar í september. Þar er stefnt að því að endurnýja sameiginlegt öryggiskerfi heimsins.