SÞ hafði ítrekað lýst áhyggjum af meðferð Navalny

0
20
Alexei Navalny sem látinn er í fangelsi
Alexei Navalny sem látinn er í fangelsi. Mynd: Evgeny Feldman Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

Rússland. Navalny. Sameinuðu þjóðirnar. Háttsettir embættismenn Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda höfðu ítrekað gagnrýnt málarekstur gegn rússneska stjórnarandstöðuforingjanum Alexei Navalny og meðferð hans í fangelsi. Navalny er látinn í haldi í fangabúðum í Síberíu. Hann hafði verið í haldi frá 2021 og afplánað nokkra fangelsisdóma.

Á síðasta ári hvatti Sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um pyntingar rússnesk stjórnvöld til að bæta þá læknisþjónustu sem Navalny biðist í ljósi versnandi heilsu hans.

„Ég hef þungar áhyggjur af versnandi heilsufari Navalny og skorti á bæði sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð,“ sagði sérstaki erindrekinn Alice Edwards.

Mannréttindasérfræðingurinn sagði að Navalny hefði verið settur í einangrun í 11 skipti, eða alls 114 daga í einangrun á sjö mánuða tímabili. Slíkt teldist til pyntinga. Síðan Edwards gaf yfirlýsinguna hafði Navalny verið fluttur í refsinýlendu í Síberíu.

Volker Türk mannréttindastjóri SÞ.
Volker Türk mannréttindastjóri SÞ. Mynd: UN Photo

Of almennar sakagiftir

Í ágúst síðastliðnum var Navalny fundinn sekur fyrir að stofna „öfgasamtök“ og 19 árum bætt við refsingu hans.

Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna gagnrýndi dóminn þá, enda væri hann byggður á óljósri og afar almennri ákæru um „öfgar.“

„Nýi dómurinn yfir stjórnarandstöðuleiðtoganum Alexei Navalny, vekur upp alvarlegar spurningar um réttarfarslegt harðræði og notkun réttarkerfisins í pólitísku skyni í Rússlandi“ sagði Türk í yfirlýsingu.