Guterres segir að lýð- og þjóðernishyggja hafi brugðist

0
636
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna
António Guterres ðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og Volkan Bozkir forseti 75.Allsherjarþingsins

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í dag á Allsherjarþingi samtakanna að heimurinn stæði nú frammi fyrir álíka augnabliki og árið 1945. Þá lýsti hann því yfir að lýð- og þjóðernishyggja hefðu brugðist andspænis COVID-19 faraldrinum.

Í árlegri skýrslu um starf samtakanna í upphafi almennra umræðna þjóðarleiðtoga, sagði Guterres að í núverandi heimsfaraldri fælist annars konar kreppa en dæmi væru um.

„COVID-19 er ekki aðeins að vekja okkur af værum blundi, hún er lokaæfing fyrir komandi heims-áskoranir.”

Í fyrsta skipti í 75 ára sögu Sameinuðu þjóðanna eru oddvitar ríkja- og ríkisstjórna og ráðherrar ekki viðstaddir árlegar umræður, heldur hafa ræður þeirra verið teknar upp fyrirfram og síðan leiknar hver á fætur annari í sal Allsherjarþingsins og á netinu.

„Öllu hefur verið snúið á hvolf í heiminum og salur Allsherjarþingsins er aldeilis undarlegur í dag. COVID-19 faraldurinn hefur gjörbreytt þessum árlega fundi. En hann hefur líka aukið mikilvægi hans að sama skapi,“ sagði Guterres.

Ástand líkt 1945

Hann líkti ástandinu við þann vanda sem við var að glíma árið 1945 þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar.

„Þeir sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir 75 árum höfðu upplifað heimsfaraldur, heimskreppu, þjóðarmorð og heimsstyrjöld. Þeir vissu hvaða gjald er greitt fyrir glundroða og gildi samstöðu. Svar þeirra mótaðist af hugsjón sem færð var í orð í stofnskrá okkur þar sem fólk er í forgrunni.“

Um leið og hann hvatti til alheims-samstöðu gegn kórónaveirufaraldrinum sagði hann að „lýð- og þjóðernishyggja hefðu brugðist…og hafa oft og tíðum gert illt verra.“

Guterres varaði sérstaklega við „bólusetningar-þjóðernishyggju.“

„Sum ríki eru sögð gera samkomulag um kaup á bóluefnum eingöngu til nota fyrir sínar þjóðir. „Bólusetningar-þjóðernishyggja“ af þessu tagi er ekki aðeins ósanngjörn heldur sjálfsmark. Enginn er öruggur fyrr en við erum öll örugg.“

Dökk mynd

Guterres dró upp dökka mynd af ástandi heimsmála og fullyrti að COVID-19 hefði opinberað veikar hliða veraldar, þar sem ójöfnuður færi vaxndi, loftslagið væri í hamfaralíki, samfélög væru sundruð og spilling væri landlæg.

„Heimsfaraldurinn þrífst á þessu óréttlæti, herjar á þá sem höllustum standa fæti og hefur þurrkað burt áratuga árangur. Í fyrsta skipti í 30 ár fer fátækt vaxandi í heiminum. Allir mælikvarðar yfir mannlega þróun benda til afturfarar. Við erum ekki á réttri leið að ná Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.”

Vopnahlé fyrir áramót

Í ræðu sinni minnti aðalframkvæmdastjórinn Allsherjarþingið á að hann hafi hvatt til alheims-vopnahlés í þann mund sem heimsfaraldurinn skall á af fullum þunga.

„Í dag hvet ég alþjóðasamfélagið til sóknar með það fyrir augum að þetta verði að veruleika fyrir árslok. Við höfum nákvæmlega 100 daga til stefnu. Það er aðeins einn sigurvegari í átökum á meðan á heimsfaraldurinn stendur yfir : veiran sjálf.”

Almennu umræður þjóðarleiðtoga hófust að lokinni skýrslu Guterres. Samkvæmt venju ríður Brasilía á vaðið, en gistiríkið Bandaríkin fylgja í kjölfarið.

Fylgjast má með umræðunum hér: https://gadebate.un.org/generaldebate75/en/