Guterres segir óyggjandi vísindalega að hætta beri að nota jarðefnaeldsneyti

0
8
Orkuver ber við appelsínugulan himinn.
Brennsla jarðefnaeldsneytis er ein veigamesta ástæða loftslagsbreytinga. Mynd: © Unsplash/Johannes Plenio

COP28. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Loftslagsbreytingar. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði á COP28 að þrátt fyrir framfarir hafi olíu- og gasiðnaðurinn ekki gengið nægilega langt í skuldbindingum sínum.

 Guterres var með orðum sínum að bregðast við yfirlýsingu nokkurra stórra olíu- og gasframleiðenda um að draga úr metanleka fyrir 2030. Guterres sagði þetta góðra gjalda vert en hins vegar væri litið framhjá kjarna málsins: að stöðva losun frá brennslu jarðefnaeldsneytis.

„Sumpart er það jákvætt að jarðefnaeldsneytisiðnaðurinn – risinn að baki loftslagsvárinnar – sé að ranka við sér,“ sagði Guterres.

Reykspúandi verskmiðja.
Reykspúandi verskmiðja. Mynd: © Unsplash/Patrick Hendry

Vísindin eru afdráttarlaus

 „Skuldbinding um að stöðva metanleka fyrir 2030 er spor í rétta átt. En í tilkynningunni um að ná nettó-núll losunarmarki fyrir 2050 segir ekkert um að uppræta losun af völdum notkunar jarðefnaeldsneytis… Niðurstöður vísindanna eru þó afdráttarlausar: við verðum að binda smám saman enda á notkun jarðefnaeldsneytis í samræmi við það mark að halda hlýnun jarðar innan 1.5 gráðu á Celsius.“

Guterres gagnrýndi einnig þá staðreynd að ekki væri neinn skýran vegvísi að finna um hvernig ætti að ná netto-núll losun fyrir 2050.

 „Það er ekkert pláss fyrir grænþvott. Og það á líka við yfirlýsinguna frá í gær.“

Kona með vatn upp að hnjám með barn í fangi. Mýrarkalda dafnaði eftir flóð í Sindh-héraði í Pakistan fyrr á árinu.
Mýrarkalda dafnaði eftir flóð í Sindh-héraði í Pakistan fyrr á þessu ári. Mynd: © UNICEF/Saiyna Bashir

 250 þúsund dauðsföll

Heilbrigðismál voru á dagskrá í fyrsta skipti í loftslagsumræðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sunnduaginn 3.desember. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að ef einungis sé litið á fáar heilsuvísitölur þá valdi loftslagsbreytingar 250 þúsund viðbótar dauðsföllum á ári á næstu áratugum.

Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri WHO sagði á COP28 að það væri löngu tímabært að ræða áhrif loftslagsbreytinga á borð á heilbrigði jarðarbúa.

„Loftslagskreppan er heilbrigðiskreppa en 27 Loftslagsráðstefnunar hafa verið haldnar án þess að ræða það. Það er ekki lengur í boði,“ sagði dr. Tedros.

Hann ítrekaði að WHO fagnaði yfirlýsingunni sem samþykkt var á laugardag á Leiðtogafundinum um loftslagsaðgerðir.