Allir eru bornir frjálsir – 75 ár afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar – fyrsti hluti

0
41
Eleanor Roosevelt formaður Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna heldur á Mannréttindayfirlýsingunni.
Eleanor Roosevelt formaður Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna heldur á Mannréttindayfirlýsingunni.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 75 ára. Þess er minnst í ár að 75 ár eru liðin frá samþykkt Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, en hún er talin liggja til grundvallar nánast öllu mannréttindastarfi í heiminum frá 1948.

Ferðamenn taka myndir af útsýnispallinum við Chaillot-höll.
Ferðamenn taka myndir frá útsýnispallinum við Chaillot-höll. Mynd: Árni Snævarr

Af því tilefni hefur Árni Snævarr upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum tekið saman nokkra stutta pistla um Mannréttindayfirlýsinguna í samvinnu við RÚV. Verður þeim útvarpað á Rás 1 í vikunni fram að Mannréttindadeginum 10.desember og efni þeirra birt á vef Sameinuðu þjóðanna og RÚV samtímis.

Palais de Chaillot við Trocadero-torg í París er ekki á meðal nafntoguðustu staða frönsku höfuðborgarinnar  en útsýnið þaðan er, hins vegar, heimsþekkt.

Adolf Hitler og Albert Speer á útsýnispallinum við Chaillot-höll 1940.
Adolf Hitler og Albert Speer á útsýnispallinum við Chaillot-höll 1940. Mynd. Wikimedia.

Útsýnið frá útsýnispallinum við Palais de Chaillot, yfir Eiffel turninn og Parísarborg er einstakt og þangað fjölmenna ferðamenn af öllum þjóðernum til að taka sjálfur með turninn í baksýn. Árið 1940 lét sjálfur Adolf Hitler ljósmynda sig þar með Eiffel-turninn í bakgrunni, nýbúinn að ráða niðurlögum Frakklands í síðari heimsstyrjöldinni.

Eftir að nasisminn var brotinn á bak aftur 1945, voru Sameinuðu þjóðirnar stofnaðar. Og 10.desember 1948 kom Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna saman í Chaillot höll og samþykkti Heimsyfirlýsinguna um mannréttindi – sem betur er þekkt, sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna.

Chaillot höll
Chaillot höll. Mynd: Árni Snævarr

Allir eru bornir frjálsir

Þetta tvennt : nasisminn og franska byltingin endurómuðu svo sannarlega í Mannréttindyfirlýsingunni.

 Í fyrstu grein hennar segir

Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan“, segir í Mannréttindayfirlýsingunni í þýðingu Jakobs Þ. Möller lögfræðings.

Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar beinlínis til þess – eins og segir í stofnskrá þeirra – að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið.“

 En einnig að staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna.“

Georges Day frá útvarpi Sameinuðu þjóðanna, Eleanor D. Roosevelt formaður Mannréttindanefdnarinnar og René Cassin frá Frakklandi einn af aðalhöfundum Mannréttindayfirlýsingarinnar.
Georges Day frá útvarpi Sameinuðu þjóðanna, Eleanor D. Roosevelt formaður Mannréttindanefdnarinnar og René Cassin frá Frakklandi einn af aðalhöfundum Mannréttindayfirlýsingarinnar. Mynd: UN Photo.

Þessi atriði voru ekki útfærð í stofnskránni. Stórveldin ætluðu Sameinuðu þjóðunum fyrst og fremst að vera sameiginlegt öryggiskerfi. Mannréttindi voru í þeirra augum jaðarmál og komust á dagskrá einna helst til að koma til móts við ýmis smáríki og trúarhópa. Krafa þeirra var að staðið væri við orð bandamanna í heimsstyrjöldinni, til dæmis í yfirlýsingum Franklins Delanoe Roosevelt Bandaríkjaforseta um hin fjögur frelsi.  Fyrsta frelsið var málfrelsi og tjáningarfrelsi hvar sem er í heiminum. Annað trúfrelsi – hvar og hvernig sem er, þriðja frelsi frá skorti, og fjórða frelsi frá ótta.

Réttindi einstakings – félagsleg réttindi

„Það er svolítið á misskilningi byggt að strax í upphafi hafi borið á klofningi á milli annars vegar Vesturveldanna, sem vildu leggja áherslu á borgarleg og einstaklingsbundin réttindi, pólitísk réttindi, og Sovétríkjanna hins vegar sem vildu leggja áherslu á félagsleg réttindi,“ segir Valur Ingimundarson prófessor við Háskóla Íslands.

„Í sinni frægu ræðu um frelsið í upphafi árs 1941 talað Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna um tjáningarfrelsi og trúfrelsi, en líka um frelsi undan ótta og skorti. Þannig að það var alveg augljós að ef Roosevelt hefði lifað eftir síðari heimsstyrjöld, ætlaði hann að leggja áherslu á félagsleg réttindi.“

Helför.
Auschwitz. Mynd: Karsten Winegeart / Unsplash

Verk var að vinna. Sex milljónir gyðinga,  hundruð þúsunda hinsegin og Róma fólks höfðu verið myrt í gasklefum, sovéskir stríðsfangar sveltir hundruð þúsundum saman til bana, fólk hneppt í þrældóm, konum verið nauðgað svo aðeins helstu óhæfuverk séu talin.

Skömmu eftir stofnun Sameinuðu þjóðanna, var stofnuð nefnd til að fjalla um mannréttindi. Kalda stríðið var hins vegar skollið á og hinar nýstofnuðu Sameinuðu þjóðir loguðu í illdeilum

Yfirlýsing en ekki sáttmáli

Formaður mannréttindanefndarinnar var Eleanor Roosevelt, ekkja Franklins heitins forseta Bandaríkjanna, sem lést skömmu fyrir stríðslok. Hún var þekkt baráttukona fyrir mannréttindum, til dæmis réttindum kvenna og Bandaríkjamanna af afrískum uppruna.

Það var ekki síst að hennar frumkvæði sem stefnan var sett á að fyrst yrði samþykkt yfirlýsing um mannréttindi, en sáttmálar fylgdu í kjölfarið.

.Charles Malik (Líbanon), René Cassin (Frakklandi), og Eleanor Roosevelt (Bandaríkjunum), áttu öll stóran þátt í samningu Mannréttindayfirlýsingarinnar.
.Charles Malik (Líbanon), René Cassin (Frakklandi), og Eleanor Roosevelt (Bandaríkjunum), áttu öll stóran þátt í samningu Mannréttindayfirlýsingarinnar. Mynd: UN Photo

„Upprunalega planið var að skrifa mannréttindasáttmála alheimsins um þetta leyti 1948, en það náðist ekki samstaða um það,“ segir Kári Hólmar Ragnarsson lektor í lögum við Háskóla Íslands. „ Í staðinn var ákveðið að skrifa þetta sem yfirlýsingu, sem við myndum kalla „soft law“ og er ekki lagalega bindandi og halda síðan vinnunni áfram og stefna að því að skrifa sáttmála.“

Samningurinn ein heild

Þótt ákvæði um frelsi einstaklingsins séu mest áberandi í Mannréttindayfirlýsingunni, er þar einnig að finna ákvæði á borð við 25.greinina:

 Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.

Ætlun höfunda Mannréttindayfirlýsingarinnar var, að ekki bæri að taka einstök atriði út úr henni, heldur væri hún ein heild.

Talið er að ekkert skjal í heimi hafi verið þýtt á jafnmörk tungumál og mállýskur og Mannréttindayfirlýsingin eða 555.
Talið er að ekkert skjal í heimi hafi verið þýtt á jafnmörk tungumál og mállýskur og Mannréttindayfirlýsingin eða 555. Mynd: UN Photo

Sovétmenn gagnrýna kynþáttamisrétti, ójöfnuð

Sovéskir stjórnarerindrekar voru ekki mjög virkir í samningu Mannréttindayfirlýsingarinnar, en notuðu tækifærið til að halda uppi gagnrýni á vesturlönd.

 „Þau bentu oft á, til dæmis, kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum og yfirgang vestrænna ríkja í nýlendum víða um heim, og voru í rauninni með því að því til að afla sér fylgjenda á þessum svæðum,“ segir Rósa Magnúsdóttir prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

„En margir hafa bent á að þau höfðu ýmislegt til síns máls. Þau voru að benda á atriði sem voru auðvitað að, sérstaklega ef við horfum á Bandaríkin, kynþáttamisrétti og rosalegur félagslegur og efnahagslegur ójöfnuður.“

Vladimir M. Koretskí frá Sovétríkjunum og Charles Malik frá Líbanon heilsast fyrir fund mannréttindanefndarinnar.
Vladimir M. Koretskí frá Sovétríkjunum og Charles Malik frá Líbanon heilsast fyrir fund mannréttindanefndarinnar.Mynd: UN Photo

Eleanor Roosevelt var formaður og verkstjóri Mannréttindanefndarinnar en aðrir voru þó afkastameiri við samningu hennar. Togstreita var ekki aðeins á milli vestrænna ríkja og Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra. Einna mikilvirkastir í samningu yfirlýsingarinnar voru  Kínverjinn Chang og Líbaninn Charles Malik og voru þeir oft á öndverðum meiði.

Fáni Ísraels dreginn að hún ií Umm Rashrash/Eilat.
Fáni Ísraels dreginn að hún ií Umm Rashrash/Eilat.Mynd: Wikimedia.

Í skugga Kalda stríðsins og átaka Ísraela og Araba

Til að auka enn á flækjustigið var mannréttindayfirlýsingin ekki aðeins samin í skugga kalda stríðsins heldur einnig átaka Arabaríkja og Ísraels, sem stofnað var sama ár. Malik var auk nefndarsetunnar, helsti talsmaður Arababandalagsins á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Sá sem á mestan heiður af því að taka samanréttindaskrána og gera úr henni heildstæða yfirlýsingu, Frakkinn René Cassin, var hins vegar gyðingur sem missti systur og alls 19 ættingja í helförinni. Hann var ákafur stuðningsmaður sjálfstæðis Ísraels.

Af þessu sést að það var síður en svo sjálfgefið að Mannréttindayfirlýsing yrði samþykkt og reyndar langt í frá.

Roosevelt fagnað 

Ekki var laust við að nokkurrar spennu gætti þegar gengið var til atkvæða 10.desember 1948 um Mannréttindayfirlýsinguna.

Svo fór að hún var samþykkt með 48 greiddum atkvæðum en 10 sátu hjá, ríki Austur-Evrópu, Suður-Afríka og Sádi-Arabía. Enginn greiddi atkvæði á móti og má það teljast merkilegt miðað við þann mikla klofning sem ríkti innan raða Sameinuðu þjóðanna á þessum tíma. Forseti Allsherjarþingsins, Ástralinn Herbert Evatt, taldi það ekki síst slyngri verkstjórn Eleanor Roosevelt að þakka.

„Það er sérstaklega viðeigandi að hér sé viðstödd sú manneskja, sem hefur leitt þessa hreyfingu, með marga aðra sér til fulltingis. Ljómi er yfir nafni hennar. Ég á auðvitað við frú Roosevelt, fulltrúa Bandaríkjanna.“

Fulltrúar aðildarríkjanna sýndu Roosevelt þakklæti sitt með langvinnu lófataki.

Við höldum áfram að fjalla um Mannréttindayfirlýsinguna næstu daga og með hvaða hætti hún hefur sett svip sinn á þau 75 ár sem liðin eru frá samþykkt hennar.

Sjá Mannréttindayfirlýsinguna hér. 

Sjá nánar hér  hér. 

75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingarinnar sjá hér.