Hitamet slegin á báðum heimsskautum

0
618
Mynd: Sergei Pesterev/Unsplash

Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO) hefur nú staðfest að hitamet á Norðurslóðum hafi verið staðfest þegar hiti mældist 38°C í bænum Verkhoyansk í Rússlandi 20.júní 2020.

Hitamet var slegið á Sikiley síðastliðið sumar. Mynd: Diego Gennaro/Unsplash.

„Þetta nýja met er hluti af hrinu mælinga sem okkur hafa borist og hringja á öllum viðvörunarbjöllum um breytingar á loftslagi“, segir Petteri Taalas forstjóri WMO. „Á síðasta ári var einnig slegið hitamet þegar 18.3°C mældust á Suðurskautslandinu.”

Alþjóða veðurfræðistofnununin er nú að fara í saumana á öðrum metmælingum. Þannig mældist 54.4°C hiti í tvígang, 2020 og 2021 á heitasta stað veraldar, Dauðadalnum í Kaliforníu. Sama máli gegnir um Evrópumetið en 48.8°C mældust á Sikiley síðastliðið sumar. „Stofnunin hefur aldrei áður þurft að rannsaka svo margar met-mælingar á sama tíma“ segir Taalas.

10°C yfir meðalhita í Síberíu

Methitastigið var mælt á veðurathugunarstöð í Síberíu þegar óvenjuleg og langvinn hitabylgja stóð yfir. Meðalhiti sumarið 2020 í norðurskautshluta Síberíu mældist allt að 10 °C yfir meðalhita. Í kjölfarið fylgdu eldar og mikil bráðnun. Hitinn í Síberíu átti þátt í að 2020 var eitt af þremur heitustu árum frá því mælingar hófust.

Hitamet í Síberíu
Loftmynd af Síberíu.

Norðurheimsskautið er eitt af þeim svæðum í heiminum sem eru að hitna mest eða tvisvar sinnum meira en að jafnaði í heiminum.  .

Verkhoyansk þar sem hitametið var slegið er um 115 kílómetra norðan við heimsskautsbaug. Hiti hefur verið mældur í veðurathugunarstöð þar frá árinu 1885.

Farið er vandlega í saumana á mælingum áður en staðfest er að hita eða kuldamet hafi verið slegin. Ástand mælitækja er kannað og aðferðafræði, og borið saman við mælingar í heimshlutanum til að skera úr um hvort hærra hitastig hafi mælst fyrr.

Þess má geta að mesti kuldi sem mælst hefur norðan við heimsskautsbaug er -69.6°C 22.desember 1991 í Klinck á Grænlandi.  Sú mæling var gerð í 3216 metra hæð og er jafnframt mesti kuldi á norðurhveli jarðar.