Hitinn á jörðinni í júlí slær met

0
78
Guterres á fundi með blaðamönnum í dag.
Guterres á fundi með blaðamönnum í dag. Mynd: UN Photo/Mark Garten

Loftslagsbreytingar. Júlí 2023 er heitasti mánuður, sem um getur í sögunni. Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO) og Copernicus loftslagsstofnun Evrópusambandsins hafa staðfest þetta þótt enn séu nokkrir dagar eftir af mánuðinum.

„Það þarf að brjótast út lítil ísöld næstu daga til að júlí 2023 slái ekki met,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þegar hann skýrði frá þessu skuggalega meti á blaðamannafundi í New York.

Hrísgrjónaakur sem orðið hefur þurrki að bráð.
Jafnt í Evrópu sem Asíu hafa hitamet verið slegin. Mynd: © IRRI/Isagani Serrano

Bara byrjunin

Áður var ljóst að fyrstu þrjár vikur mánaðarins voru hinar þrjár heitustu sem mælst hafa. Jafnframt hefur hafið aldrei verið hlýrra á þessum tíma árs. Guterres benti á að allt væri þetta í samræmi við spár vísindamanna og þeir væru á einu máli um að orsakanna væri að leita hjá manninum. Það eina sem hefði komið á óvart væri hversu hratt þetta gerist.

„Loftslagsbreytingar eru hér og nú. Og þetta er bara byrjunin,“ sagði Guterres. Hann sagði að nú væri ekki um að ræða hlýnun jarðar, heldur suðu.
Hann hvatti leiðtoga veraldar til að grípa til aðgerða.

„Nú dugar ekki að hika. Afsakanir duga ekki. Það er ekki hægt að bíða eftir því að aðrir taki af skarið. Það er ekki lengur tími til þess. En það er enn hægt að takmarka hlýnun jarðar við 1.5 gráðu og koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.“

Sjá einnig hér.