Yfirdráttardagur jarðar í ár er 2.ágúst

0
102

Yfirdráttardagur jarðar. Frá og með 2.ágúst, lifir plánetan um efni fram. Það þýðir að heimsbyggðin hafi nú þegar klárað endurnýjajanlegar auðlindir jarðar í ár. Það sem eftir er ársins, lifum við því á yfirdrætti. Yfirdráttardagur jarðar er 2.ágúst 2023.

Samtökin Global Footprint Network reikna út árlega yfirdráttardag jarðar. Þegar það var gert í fyrsta skipti í upphafi áttunda áratugarins var yfirdráttardagurinn í lok desember en nú er hann 2.ágúst.  Yfirdráttardagurinn færist sífellt framar á árið. Hann var á jóladag 1971 og 26.september 1999. Sex árum síðar hafði hann færst til 27.ágúst og síðan hefur hann þokast áfram, nema þegar COVID-19 herjaði á heimsbyggðina.

Bókhald plánetunnar

Útreikningurinn er ekki ólíkur venjulegu bókhaldi. Annars vegar eru tekjur og hins vegar eyðsla. Yfirdráttardagur jarðar er þá dagurinn þegar ekki er lengur innistæða (sjálfbærar auðlindir) fyrir eyðslunni, sem felur í sér að gengið er á vistkerfi jarðarinnar.

Árið 2023 tók það Katar aðeins 41 dag að klára innistæðu sína, fyrst allra ríkja. Almennt má segja að Vestur-Evrópa klári endurnýjanlegar auðlindir sínar á aðeins  fjórum til fimm mánuðum, norðurhlutinn á undan suðurhlutanum.

Athygli vekur hve staða Norðurlandanna er slæm. Viðurkennt er að í útreikningunum komi víðlend ríki heldur illa út og í tilfelli Íslands, þegar saman fer fámenn þjóð og tiltölulega stórt land og landhelgi, var ákveðið að niðurstaðan yrði villandi. Því er Ísland ekki með.

Yfirdráttardagar Norðurlanda eru frá 28.mars til 12. apríl, og eru Danir fyrstir

Neyslugrennstu ríki heims eru hins vegar jafnframt í hópi fátækustu ríkja heims og yfirdráttardagur þeirra er mjög seint á árinu. Þar má nefna Benín (26.desember), Suður-Súdan (25.desember) og Malí 21.desember.

En hvað er til ráða?

Í heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna númer tólf um sjálfbæra neyslu og framleiðslu eru ýmsar ráðleggingar um hvað einstaklingar geta gert til að minnka neyslu sína. Skilvirkari neysla er þýðingarmikið lóð á vogarskálarnar til að þoka yfirdráttardeginum aftar á árið.

  • Verslaðu, borðaðu og drekktu heima í héraði. Með því að styðja fyrirtæki í heimabyggð eða hverfinu þínu  er atvinna heimamanna tryggð og peningarnir haldast í héraði.
  • Vertu meðvitaður um umbúðir, minna er betra!
  • Kauptu notaða vöru þegar hægt er.
  • Kannaðu málið og verslaðu við fyrirtæki sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi og eru umhverfisvæn.
  • Nældu þér í snjallforrit sem gera þér kleift að deila matvælum. Einnig er util snjarllforrit um hvernig láta afgangsmat af hendi. Með þessu má minnka matarsóun.
  • Veldu endurnýtanlegar vörur. Forðastu plastpoka við innkaup, notaðu endurnotanlegarr eða endurnýtanlegar vatnsflöskur.