Horn Afríku: 130 þúsund manns í hættu

0
58
Konur sækja sér vatn í Kureyson þorpinu í Galkayo í Sómalíu.
Konur sækja sér vatn í Kureyson þorpinu í Galkayo í Sómalíu. Mynd:UN Photo / Fardosa Hussein
Sómalía. Horn Afríku. Loftslagsbreytingar, ofbeldi, óöryggi og sjúkdómar herja nú á Horn Afríku. 130 þúsund manns kunna að vera í lífshættu og nærri 50 milljónir búa við neyðarástand vegna fæðuóröyggis. Liesbeth Aelbrecht verkefnisstjóri WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar segir að síðast þegar neyðin bankaði að dyrum á Horni Afríku, ekki síst í Sómalíu, hafi hungursneyð verið afstýrt með samstilltu og vel fjármögnuðu átaki. Nú hafi hins vegar ekki tekist að safna nema broti af því fé, sem þarf til að forða þessum heimshluta frá hungri. Grein Aelbrecht birtist í Morgunblaðinu.
Liesbeth Aalbrecht verkefnisstjóri WHO í neyðarástandinu á Horni Afríku.
Liesbeth Aalbrecht verkefnisstjóri WHO í neyðarástandinu á Horni Afríku.

Mæður spjölluðu við hjúkrunarfræðinga á næringarmiðstöð í Kismayo um 530 kílómetra frá Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, á meðan þær biðu eftir að röðin kæmi að þeim.  Margar þeirra höfðu farið um langan veg til þess að börn þeirra gætu fengið nægan mat.

Þar hitti ég unga móður sem nýverið hafði verið innrituð í kólerumeðferð ásamt vannærðu barni sínu. Á meðan hún er til lækninga ásamt veiku barni sínu, er hún fjarri heimili sínu og getur ekki litið eftir öðrum börnum sínum.

Andlitin á bakvið tölurnar

Þetta eru andlitin á bakvið tölunar á Horni Afríku þar sem hungur sverfur að tugum milljónum manna.

Úrkoma hefur verið undir meðallagi fimm árstíðir í röð á undanförnum þremur árum með þeim afleiðingum að þar herjar nú versti þurrkur, sem um getur. Rausnarlegar fjárveitingar gerðu aukið mannúðarstarf mögulegt á síðasta ári og allir lögðust á eitt til að hindra hungursneyð. En neyðarástandinu er engan veginn lokið. Búist er við að nærri helmingur landsmanna búi við fæðuóöryggi næstu mánuði með þeim afleiðingum að sjúkdómar og dauði verður hlutskipti margra. 43 þúsund manns létust af völdum þurrkanna á síðasta ári að því er fram kemur í rannsókn á vegum WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Fólk á leið frá Eþíópíu til Djibouti.
Fólk á leið frá Eþíópíu til Djibouti.Mynd: © IOM/Alexander Bee

WHO hefur í samstarfi við heilbrigðisráðuneyti Sómalíu og aðra samstarfsaðila skipulagt bólusetningarherferð. 2000 heilbrigðisstarfsmenn og 160 teymi hafa náð til rúmlega sjö milljóna manna. Þetta hefur bætt ástandið. Vannærðum börnum hefur verið vísað til sérhæfðra heilsugæslustöðva í alvarlegri vannæringu sem hefur heilsufarslegar afleiðingar.

Þótt ástandið hafi batnað víða eftir regntímabilið frá mars til maí, er enn glímt við afleiðingar þurrka. Ofan á bætast svo flóð annars staðar, sem hafa neytt 220 þúsund manns til að flýja heimili sín.  Slíkt eykur hættu á útbreiðslu farsótta.

Loftslagsbreytingar

Lofslagsbreytingar hafa breytt veðurfarsmynstri. Búist er við að öfgakennt veðurfar verði algengari og alvarlegri. Hækkandi matarverð og átök sums staðar bætast svo ofan á þær búsifjar sem veðurfarið hefur valdið.

Mæður bíða þolinmóðar eftir matarskammti í fyrri hungursneyð í Sómalíu.
Mæður bíða þolinmóðar eftir matarskammti í fyrri hungursneyð í Sómalíu. OCHA/Ari Gaitanis

Afleiðingarnar eru þær að ríkin á Horni eða austur-odda Afríku og í nágrenni: Djibútí, Eþíópía, Kenía, Sómalía, Suður-Súdan, Súdan og Úganda, standa frammi fyrir afar litlu fæðuöryggi og heilbrigðis-vá. Fimmtíu og þrjár milljónir, eða sjötti hver maður á svæðinu, fær ekki nóg að borða. Þetta er umtalsverð aukning frá síðasta ári þegar 37 milljónir manna glímdu við fæðuóöryggi.

Vegir á flóðasvæðum hafa orðið ófærir og torveldar það birgðaflutninga.
Vegir á flóðasvæðum hafa orðið ófærir og torveldar það birgðaflutninga. Mynd: Radio Ergo/OCHA

Á þessu svæði er hætta á sjúkdómsfaröldrum, þar á meðal kóleru, mislingum, heilahimnubólgu, mýraköldu (malaríu), beinbrunasótt, lifrarbólgu E og miltisbrandi. Flóð gera svo illt verra.

Börn, ófrískar konur og uppflosnað fólk verður harðast úti. Á þessu ári má búast við að vannæring herji á fleiri börn en nokkru sinni fyrr.

Aldrei fleiri á vergangi

Metfjöldi fólks á vergangi eykur hættu á útbreiðslu sjúkdóma. Nú þegar hýsir þetta svæði 16 milljónir manna sem flúið hafa heimili sína til annarra ríkja eða eru á vergangi í heimalandinu. Flestir hafa flúið átök, en meir en tvær milljónir hafa hrakist á brott af völdum þurrka. Fylgifiskar fólksflutninga af þessari stærðargráðu eru oftast óþrifnaður, skortur á salernum og minnkandi aðgangur að heilsugæslu.

Flóð og þurrkar hafa skipst á að herja á Sómali
Flóð og þurrkar hafa skipst á að herja á Sómali Mynd: Radio Ergo/OCHA

Við höfum séð að vel fjármagnaðar og samstilltar aðgerðir hafa áður komið í veg fyrir hugsanlega hungursneyð í Sómalía. Þá var hægt að hjúkra veiku fólki, þar á meðal alvarlega vannærðum börnum. En að þessu sinni hefur einungis tekist að safna örlitlu broti af þeim 178 milljónum Bandaríkjadala, sem það kostar að fjármagna neyðaraðstoð við Horn Afríku og nágrannaríki. Afleiðingarnar eru þær að nú eru hjálpargögn á þrotum. Án fjármuna er hætt við að sá árangur sem náðst hefur muni ganga til baka. Þar með verða milljónir manna berskjaldaðar gagnvart hungri, sjúkdómum og dauða. Alþjóða samfélagið getur ekki látið þetta gerast.

Liesbeth Aelbrecht er verkefnisstjóri  WHO vegna neyðarástandsins á Austurodda Afríku og nágrennis.