Alþingi er 9. yngsta þing heims – norska stórþingið það yngsta

0
108
Sanna Marin þáverandi forsætisráðherra Finnlands og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki 2022.
Sanna Marin þáverandi forsætisráðherra Finnlands og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Norðurlandaráðsþingi í Helsinki 2022. Mynd: Johannes Jansson/norden.or

Lýðræði. Þingræði. Alþjóðlegur dagur þingræðis er haldinn 30.júní ár hvert. Dagurinn er gott tækifæri til að líta yfir farinn veg og sjá hvaða árangur hefur náðst á ýmsum sviðum. Hversu vel gengur að endurspegla alla þjóðfélagsþegna og hvernig er staða kvenna og ungs fólks?

Færa má rök fyrir því að meiri ástæða sé til að halda upp á Alþjóðlegan dag þingræðis nú en oftast áður, þegar traust á opinberum stofnunum er víða í lágmarki. Lýðræðið sjálft stendur andspænis áskorunum frá lýðskrumurum og þjóðernishreyfingum. Til þess að lýðræði þrífist er þörf á öflugum, gegnsæjum og ábyrgum þingum þar sem fulltrúar sem flestra hópa eiga sæti.

Af hverju er þátttaka ungs fólks mikilvæg?

Ungt fólk þarf að búa lengi við pólitískar ákvarðanir dagsins í dag. Ræðumenn á fundinum "Framtíðin sem við viljum" um loftslagsmál 2022. Andreas Omvik/norden.org
Ungt fólk þarf að búa lengi við pólitískar ákvarðanir dagsins í dag. Ræðumenn á fundinum „Framtíðin sem við viljum“ um loftslagsmál 2022. Andreas Omvik/norden.org

Ungt fólk þarf að lifa lengi með þeim pólitísku ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni og því er sanngjarnt að það sé haft með í ráðum í ákvarðanatöku. Samt sem áður ber ungt fólk víða skarðan hlut frá borði og er hlutfallslega fámennt á þjóðþingum. Helmingur heimsbyggðarinnar er undir þrítugu. Hins vegar eru aðeins 2.6% þingmanna í heiminum á þessum aldri.

Ungt fólk krefst loftslags-aðgerða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Ungt fólk krefst loftslags-aðgerða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Mynd:© DESA.

Alþjóða þingmannasambandið (The Inter-Parliamentary Union (IPU)) vinnur ötullega að því að snúa við þessari þróun og hefur lagt til úrræði til að ná árangri. Á meðal tillagna IPU eru að koma upp kvótum fyrir ungt fólk, að samræma kjörgengis- og kosningaaldur, og styðja við bakið á ungum frambjóðendum til pólitískra embætta.

Norræna undantekningin  

Ungt fólk á Norðurlöndum á sér tiltölulega marga fulltrúa á þjóðþingum sínum. Noregur, Svíþjóð, Ísland og Danmörk eru öll á top tuttugu lista yfir yngstu þing heims, miðað við hlutfall þingheims undir þrítugu.

Alþingi.
Alþingi. Mynd: Ane Cecilie Blichfeldt/norden.org

Alþingi Íslendinga er níunda yngsta þing heims en 7.9% þingmanna er 30 ára eða yngri. Gunnhildur F. Hallgrímsdóttir er yngsti þingmaður Íslandssögunnar en hún settist á þing í janúar 2022, sem varamaður Björns Leví Gunnarssonar.

Norska stórþingið.
Norska stórþingið. Magnus Fröderberg/norden.org

Á norska Stórþinginu er hæst hlutfall þingmanna undir þrítugu eða 13.6%, samkvæmt upplýsingum Alþjóða þingmannasambandsins. Ekki nóg með það heldur hefur ungt fólk oft komist til áhrifa í ríkisstjórn. Sem dæmi má nefna Emilie Enger Mehl, sem varð yngsti dómsmálaráðherra Noregs þegar hún tók við embætti 2021.

Ekki er þó sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Þótt Noregur standi sig almennt vel hvað tjáningarfrelsi varðar, virðist ungt fólk óttast að láta skoðanir sínar í ljós, að mati norsku tjáningarfrelsisnefndarinnar. Þá er unga fólkið berskjaldaðra en hinir eldri fyrir áreitni. Unga fólkið gæti einnig óttast að vera ekki tekið alvarlega að sögn nefndarinnar.

Riksdagen í Stokkhólmi.
Riksdagen í Stokkhólmi. Mynd: Magnus Fröderberg/norden.org

Sænska þingið, Riksdagen, er 17.yngsta þing heims en 6.6% þingheims er undir þrítugu. Svíar geta státað sig af yngsta þingmanni sögunnar, Anton Abele, sem kosinn var á þing átján ára að aldri 2010.  Einnig er dæmi um kornunga ráðherra, svo sem Romina Pourmokhtari, sem varð yngsti ráðherra sænskrar stjórnmálasögu þegar hún varð loftlags- og umhverfisráðherra tuttugu og sex ára gömul 2022.

Danska þingið situr í Kristjánsborgarhöll. Mynd: Sanna Oksanen

Danska Folketinget er í ellefta sæti æskulýðslista þjóðþinga en 7.8% eru undir þrítugu. Yngsti þingmaðurinn er Helena Artmann Andresen, sem var tuttugu og eins árs er hún var kosin á þingi í nóvember 2022.

Finnska þingið.
Finnska þingið. Mynd: Magnus Fröderberg/Norden.org

Finnska þingið er 55.yngsta þing heims, en aðeins 3.5% þingamanna eru ungir samkvæmt þessari skilgreiningu. Þótt finnska þingið, sé skipað eldri þingmönnum en önnur norræn þjóðþing, er hlutfall ungs fólks þó hærra en heimsmeðaltalið sem er aðeins 2.8%. Og ástæðulaust er að gleyma að Sanna Marin vakti heimsathygli þegar hún varð yngsti forsætisráðherra heims 34 ára gömul 2019.