Karabakh: 100 þúsund manns á vergangi

0
6

 Armenía. Flóttamenn. Hjálparstarf. Talið er að aðeins örfáir Armenar séu enn í Karabakhéraði í Aserbædjan. Rúmlega hundrað þúsund manns hafa flúið til Armeníu. Fyrsta sveit Sameinuðu þjóðanna í þrjátíu ár hefur verið send til héraðsins.

Svo fáir Armenar eru eftir að samkvæmt sumum heimildum eru þeir aðeins fimmtíu en aðrir segja töluna töluvert hærri eða eitt þúsund.

Flóttamennirnir hafa allir leitað til Armeníu. Liðsmenn Sameinuðu þjóðanna veita mannúðaraðstoð og aðra hjálp á staðnum.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt alla
hlutaðeigandi að virða vopnahlé sem samið varum 9.nóvember 2020 og grundvallaratriði alþjóðlegra mannúðar og mannréttindalaga.

Matvæli og lífsnauðsynjar

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna  (WFP) hefur komið 4 þúsund matarpökkum til þeirra sextán þúsund Armena sem flúið höfðu Karabkh um Lachin-skarðið. Þá hefur 21 þúsund heitri máltíð verið komið til armenskra stjórnvalda sem vinna við að skrá flóttamenn.

“Við höfum þungar áhyggjur af áhrifum á líf og lífsviðurværi óbreyttra borgara,” segir Nanna Skau fulltrúi WFP í Armeníu.  “Það er þýðingarmikið að fólk fái tímabæra og viðvarandi mannúðaraðstoð.”

Skelfileg brunasár

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) starfar með armenskum heilbrigðisyfirvöldum við að mæta ástandinu í dag og næstu mánuði.

Robb Butler sérstakur sendifulltrúi WHO kannaði ástandið þar sem gert er að sárum fólks sem varð fyrir bruna þegar eldsneytisbirgðastöð sprakk í loft upp á leið flóttafólks til Armeníu. “Hvert einasta hinna 80 sjúkrarúma er nýtt til að hlúa að fólki sem lifði af sprenginguna,” sagði Butler. “Heilbrigðisstarfsfólk vinnur hörðum höndum að hlúa að og græða sár, en þetta er lítið land með takmörkuð úrræði og þarfirnar eru gríðarmiklar.”

Heilbrigðismálastofnunin hefur sent lyf gegn ósmitandi sjúkdómum sem duga eiga 50 þúsund manns í þrjá mánuðui.  

Samstillt átak

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur komið á fót öryggissvæði í Goris, sem þjónar 300 börnum og foreldrum þeirra. Þróunarstofnunin (UNDP), ásamt WHO og UNICEF undirbýr sálfræðiaðstoð fyrir 12 þúsund flóttamenn.

Flóttamannastofnunin (UNHCR) aðstoðar stjórnvöld í Armeníu við skráningu flóttamanna og hefur dreift 150 þúsund pökkum með hjúkrunarbúnaði til flóttamanna og gistisamfélaga.