“Stór dagur fyrir íslensk börn!”

0
536

börn

21. febrúar 2013. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var löggiltur á Alþingi í gær. Samningurinn var upphaflega gerður árið 1989 og staðfestur á Íslandi 1992 en áhugi hefur verið fyrir því um langt skeið að taka af öll tvímæli um gildi hans á Íslandi og lögfesta hann formlega.

Baráttumenn fyrir bættum haga barna segja að 20. febrúar hafi verið stór dagur fyrir íslensk börn.
 „Þetta er mikil réttarbót fyrir börn á Íslandi,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi á heimasíðu samtakanna. “„Frá stofnun Barnaheilla hefur sáttmálinn verið leiðarljós samtakanna og barist hefur verið fyrir lögfestingu hans hér á landi. Það er því mikið fagnaðarefni að nú sé Barnasáttmálinn loksins orðinn löggiltur og að hægt sé að beita ákvæðum hans fyrir íslenskum dómstólum sem settum lögum,”.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar var fyrsti flutningsmaður tillögunnar en meðflutningsmenn voru úr öllum flokkum; þau Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, Margrét Tryggvadóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, og Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Málið hefur verið til umræðu nánast alla tíð frá því sáttmálinn var undirritaður.
Helgi Hjörvar sagði þegar hann mælti fyrir tillögunni í gær að ástæða þess að lögfesta bæri barnasátmálann og valfrjálsar bókanir við hann, væri sú það yrði “algjörlega ótvírætt og yfir allan vafa hafinn og hafi þá sterku stöðu sem lögfesting sáttmálans færir honum og þau áhrif sem það hefur á réttinn almennt.”

Til viðbótar sagði Helgi að nauðsynlegt væri að gera sérstakar ráðstafanir sem lúta að ungum afbrotamönnum og gerðar hafa verið athugasemdir við af hálfu þeirra sem hafa haft eftirlit með framkvæmd sáttmálans.

„Þingmenn eiga hrós skilið fyrir að standa vörð um réttindi íslenskra barna með þessum hætti,” segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla. “Baráttu Barnaheilla – Save the Children fyrir löggildingu Barnasáttmálans er lokið, en áfram heldur starf okkar með barnasáttmálann að leiðarljósi og að standa áfram vörð um að réttindi barna séu virt í hvívetna”.

“Þó að börn á Íslandi búi sem betur fer við ríkari og meiri mannréttindi en börn búa við víðast hvar annars staðar í heiminum þá er afar mikilvægt að við tryggjum þann lagalega grundvöll sem mannréttindi þeirra hvíla á og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grundvallargagn í því efni,” sagði Helgi Hjörvar.

Mynd: Karin Beate Nøsterud/norden.org