Loftslagsbreytingar og Langt-í-burtu-istan

0
483
Holarjokull2006

Holarjokull2006Holarjokull05082015 klippt

15.ágúst 2015. Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum skrifar eftirfarandi grein Loftslagsbreytingar eru ekki bara í Langt-í-burtu-istan“, sem birtist í Fréttablaðinu og visir.is í dag.

Hornfirðingurinn Sigurpáll Ingibergsson hefur það fyrir sið að taka mynd í hvert sinn sem hann á leið fram hjá Hólárjökli. Sigurpáll sendi loftslags-átakinu #MittFramlag þessa samsettu mynd og eru myndirnar teknar með tíu ára millibili. Engum leynist breytingin sem hefur orðið á einum áratug. „Það sést glöggt að jökultungan hefur styst og jökullinn þynnst,“ segir Sigurpáll og bætir við: „Ég spái því að jökultungan verði horfin innan fjögurra ára. Hlutirnir gerast svo hratt.“

Hólárjökull er skriðjökull úr Vatnajökli, stærsta jökli Íslands og Evrópu. Hann mun láta mikið á sjá vegna hlýnunar jarðar á næstu tveimur öldum og munu skriðjöklarnir sunnan í jöklinum (Breiðamerkurjökull og Skeiðarárjökull) eyðast fyrst. 

langjokullLangjökull, næststærsti jökull Íslands, mun einfaldlega hverfa innan hálfrar annarrar aldar og við lok þessarar aldar verða 80% jökulsins á bak og burt.

Síðasta kynslóð sem getur gert eitthvað
Þeir sem fylgjast með erlendum fréttum hafa vafalaust orðið þess varir að Bandaríkjastjórn hefur gripið til róttækra aðgerða til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. 

„Við erum fyrsta kynslóðin sem finnur fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og sú síðasta sem getur gert eitthvað í málinu,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, þegar hann fylgdi aðgerðunum úr hlaði á dögunum. 

Hins vegar er löngu kominn tími til að loftslagsbreytingar séu fluttar úr flokknum „erlendar fréttir“ yfir í „innlendar fréttir“ jafnt á Íslandi sem annars staðar og kannski ættu þessar kvíslar að renna saman í farveginn „mannlegar fréttir“.

Fyrir þá sem telja loftslagsbreytingar enn vera „erlendar fréttir“ sem komi okkar álíka mikið við og lagabreytingar um flóðhestaveiðar í Langt-í-burtu-istan, skal bent á að málsmetandi útlendingar sækja til Íslands til að sjá breytingarnar með eigin augum. 

555373Fyrir tveimur árum heimsótti Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ísland og sagði á blaðamannafundi að eitt markmið heimsóknarinnar væri „að hann vildi sjá afleiðingar loftslagsbreytinga af eigin raun og nota vitnisburðinn til að efla pólitískan vilja og sannfæra fólk um hversu brýnn vandi loftslagsbreytingar væru“.

Tusku-makríll í stað lundans?
Við þurfum samt ekki að hafa orð útlendinga fyrir því að loftslagsbreytingar séu að gerast, hér og nú. Vestmannaeyingar horfa forviða á tómt bjargið í einni stærstu varpstöð lunda í heiminum. Sjór hefur hlýnað við Ísland og makríllinn sækir norður á bóginn og á Íslandsmið landsmönnum til mikillar ánægju. En böggull fylgir skammrifi því makríllinn leitar í sama æti og lundinn, með þeim afleiðingum að hann kemur ekki upp afkvæmum sínum, pysjunum. 

11651629793 71186b38da mSérfræðingar eru á einu máli um að íslenskt efnahagslíf hafi náð sér nokkuð vel eftir Hrunið meðal annars þökk sé tveimur hvalrekum í líki aukins ferðamannastraums og tekna af nýkominni fisktegund: makrílnum. Það er rífandi gangur í sölu tuskulunda á Laugavegi og Skólavörðustíg í Reykjavík, en ef bjargið tæmist endanlega í Eyjum verður lundinn álíka söluvænlegur og geirfuglinn sálugi og fitja verður upp á einhverju nýju. Ekki veit ég hvort tuskumakríll seldist eins og heitar lummur, en það væri auk þess skammgóður vermir því þegar loftslagið er annars vegar virðist allt breytingum undirorpið og ekkert vera endanlegt. Makríllinn gæti horfið eins og hendi sé veifað ef sjórinn kólnar á ný, þegar bráðnunar Grænlandsjökuls fer að gæta í auknum mæli í hafinu. 

#MittFramlag
Sameinuðu þjóðirnar efna til enn einnar loftslagsráðstefnu, þeirrar tuttugustu og fyrstu í röðinni, í París í desember og nú er talið að tímamótasamkomulag kunni að vera innan seilingar. Ljósmyndir Sigurpáls af jöklinum hörfandi, voru hans framlag til átaksins og keppninnar #mittframlag sem íslensk félagasamtök og stofnanir með fulltingi Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna, hafa efnt til í aðdraganda Parísarfundarins.

Nú líður á seinni hlutann í keppninni þar sem sigurvegari fær Parísarferð að launum, en þar er einfaldlega spurt : Hvert er þitt framlag í dag til bættrar umgengni við náttúruna og gegn loftslagsbreytingum?
Og verkefnið er að taka mynd af hverju því sem þér kann að detta í hug og senda gegnum Twitter eða Instagram með #mittframlag eða deila á vefsíðu verkefnisins www.mittframlag.is.

Myndir: Hólárjökull: Sigurpáll Ingibergsson/#MittFramlag, Langjökull og Ban Ki-moon virðir fyrir sér jökulin úr þyrlu.  SÞ-myndir/Eskinder Debebe. Lundi: Judith/Creative commons https://creativecommons.org/licenses/by-nc/2.0/