Þróunarsamvinna ber ávöxt!

0
506

Þróun

17. september 2012. Átakið „Þróunarsamvinna ber ávöxt“ hefst í dag. Tónlistarfólkið Magni Ásgeirsson, Varsjárbandalagið, Ragnheiður Gröndal, Védís Hervör, Jón Jónsson, Friðrik Dór og Lára Rúnarsdóttir leggja átakinu lið Stærstu frjálsu félagasamtökin á Íslandi, sem starfa að alþjóðlegri þróunarsamvinnu, standa að kynningu á þróunarmálum í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands í næstu viku, dagana 17.-22. september.

Þetta er í annað sinn sem þessi hópur stendur að slíku átaki en áherslan í ár er á ójöfnuð í heiminum. Markmiðið með átakinu, sem ber yfirskriftina „Þróunarsamvinna ber ávöxt“ er að auka skilning og þekkingu almennings á málefnum þróunarlanda og vekja Íslendinga betur til vitundar um samfélagslegar og siðferðilegar skyldur þjóðarinnar í baráttunni gegn fátækt, vannæringu og ójöfnuði í heiminum. Komum heiminum í lag! Undirtitill átaksins í ár er „Komum heiminum í lag“ en félagasamtökin hafa fengið landsþekkta tónlistarmenn til að leggja málefninu lið og koma skilaboðum átaksins í „lag“.

Tónlistarmennirnir semja fimm mismunandi lög við sama textann og verður eitt lag frumflutt á degi hverjum frá mánudegi til föstudags vikuna 17.-21. september á Rás 2 og á sérstakri Fésbókarsíðu sem stofnuð hefur verið af þessu tilefni. Átakinu lýkur svo með tónleikum á Café Rosenberg við Klapparstíg laugardagskvöldið 22. september. Greinar, afrískar kvikmyndir og málþing Greinar eftir þjóðþekkta einstaklinga um þróunarmál verða birtar daglega í Fréttablaðinu og væntanlega verður málaflokkurinn líka umræðu í ljósvakamiðlum og öðrum fjölmiðlum. Þá stendur Afríka 20:20, félag áhugafólks um Afríku sunnan Sahara, og Bíó Paradís fyrir sýningum á þremur afrískum kvikmyndum.

Hver mynd verður aðeins sýnd þrisvar sinnum helgina 21.-23. september og því um að gera að grípa þetta einstaka tækifæri til að kynnast afrískri kvikmyndamenningu. Föstudaginn 21. september frá kl. 15.00-17.00 stendur Félag Sameinuðu þjóðanna fyrir málþingi í Öskju í Háskóla Íslands um háskóla S.þ. á Íslandi en þeir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn. Að átakinu standa ABC barnahjálp, Afríka 20:20, Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna – UNICEF á Íslandi, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, Samband íslenskra kristniboðsfélaga, SOS barnaþorpin á Íslandi, UN Women og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.