Milljón flosnað upp í Úkraínu

0
483

ukraine2

19.janúar 2015. Sameinuðu þjóðirnar hafa vaxandi áhyggjur af harðnandi átökum í Úkraínu, að þessu sinni um yfirráð yfir flugvellinum í Donetsk í austurhluta landsins.

Mikið mannfall hefur orðið þar og er hætta á að vopnahléð sem samið var um í september sé fyrir bí.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur beðið deiluaðila að standa við ákvæði Minsk-samkomulagsins og hætta tafarlaust vopnaviðskiptum.

Ellefu óbreyttir borgarar létust og 17 særðust 13.janúar þegar langferðabifreið varð fyrir sprengjukúlu af misgáningi.

Samkvæmt síðustu tölum frá Mannréttindaskrifstofu SÞ (OHCHR) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni létust 4.707 og 10.322 særðust á tímabilinu frá miðjum apríl til 12.desember á síðasta ári. 1.357 hafa látist frá því samið var um vopnahlé.

Þá telja Sameinuðu þjóðirnar að ein milljón manna hafi orðið að flýja heimili sín á átakasvæðum, þar af eru 530 þúsund innan landmæra Úkraínu, þar af að minnsta kosti 130 þúsund börn.

Mynd: Úkraínskir stjórnarhermenn nærri bænum Slovyansk síðasta sumar. 

Sasha Maksymenko/Attribution-NonCommercial 2.0 Generic (CC BY-NC 2.0)