Mynd af máltíð í faðmi fjölskyldunnar

0
557

Family meal2

18. desember 2014. Hvers vegna er fjölskyldumáltíð mikilvæg? Í ys og þys nútímans verður sífellt mikilvægara að gefa sér tíma til að setjast niður í faðmi fjölskyldunnar og njóta þess að borða saman, skiptast á sögum, draumum og hlæja eða einfaldlega njóta samvistanna.

Family mealMatvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Evrópusambandið beina í dag kastljósinu að hefðbundnum fjölskyldumáltíðum í aðdraganda hátíðanna með því að ýta úr vör Ljósmyndasamkeppni um fjölskyldumáltíð með fulltingi hins fræga matreiðslumeistara Jamie Olivier sem tekur sæti í dómnefnd. 

Frá og með deginum í dag og til 11.janúar 2015, er fólk um allan heim beðið um að tjá með ljósmynd hvers vegna fjölskyldumáltíðin er þeim kær. Er það vegna fjölskylduuppskriftar sem hefur erfst kynslóð eftir kynslóð, mann fram af manni? Eða eruð þið einungis saman einu sinni á ári og því ein fjölskyldumáltíð öðrum dýrmætari? Eða vegna þess að þið borðið saman afurðir sem þið hafið ræktað af alúð úr ykkar eigin garði?

Ljósmyndasamkeppnin er síðasti liður í verkefninu „Fjölskyldumáltíðin – Hvað færir okkur saman?” sem er samstarfsverkefni WFP og deildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem hefur mannúðaraðstoð og almannavarnir (ECHO) á sinni könnu. Ljósmyndarinn Chris Terry hefur ferðast til fimm landa í þremur heimsálfum til að ljósmynda kjarnann í starfsemi WFP: að útvega fjölskyldum mat um allan heim.

Familymeal3„Allir sem ég hef myndað hafa verið einstaklega rausnarlegir á tíma sinn og gestrisni. Ég hef verið boðinn velkominn á heimili og í samfélög og mér leyft að taka myndir á erfiðum stundum í lífi fólks. Það hefur deilt með mér því litla sem það hafði handa á milli, “ segir Terry.

„Í mínum augum sýnir þetta að um allan heim eru fjölskyldur og samfélög sem deila þeirri þörf að vilja borða saman. Þetta minnir mig líka á hve heppin mín eigin fjölskylda er, að hafa nægan mat á borðum og hve mikilvægt það er að njóta matarins sem við eldum og borðum saman. Ég elska fjölskyldumáltíð þegar við deilum því nýjasta úr lífi okkar og leggjum á ráðin fyrir morgundaginn.”

Jamie Oliver, hinn frægi sjónvarpskokkur sem situr í dómnefnd keppninnar, tekur undir: „Það er veigamikill þáttur í lífi fjölskyldunnar að gefa sér tíma til að borða saman heilsusamlegan og næringarríkan mat. Fjölskyldumáltíðarverkefnið er ljóslifandi dæmi, með frábærum myndum og hvetjandi sögum, að hvar sem við erum stödd í heiminum nýtur fólk þess að setjast að málsverði með sínum nánustu. Takið endilega mynd og segið frá því hvers vegna fjölskyldumáltíðin er ykkur kær.”

Tveir sigurvegarar verða valdir. Annars vegar velur dómnefndin, skipuð Jamie Oliver og ljósmyndaranum Chris Terry, sinn sigurvegara og hins vegar kýs almenningur sinn eigin sigurvegara. Til þess að taka þátt í keppninni og til að kynna sér leikreglur, ber að smella á eftirfarandi krækju: www.familymeal.eu/photo-competition.html

Myndir sigurvegaranna verða notaðar í farandsýningunni Fjölskyldumáltíðin, sem prýða mun evrópskar höfuðborgir árið 2015. Að auki fá þeir matreiðslubók undirritaða af Jamie Oliver, auk þess sem myndirnar verða sýndar á vefsíðu verkefnisins: www.familymeal.eu

# # #

WFP er stærsta mannúðarstofnun veraldar sem berst gegn hungri í heiminum og kemur mataraðstoð til bágstaddra og vinnur með einstökum samfélögum að því að bæta næringu og efla þrek. Árið 2013 hjálpaði WFP meir en 80 milljónum manna í 75 löndum.

Fylgist með okkur á Twitter @wfp_media/@wfp_europe>