NORÐURLÖND OG SAMEINUÐU ÞJÓÐIRNAR: Umbætur á Sameinuðu þjóðunum úr einum vandræðum í önnur

0
533

 (HELSINGIIN SANOMAT/16. janúar 2006)
 

NEW YORK . Um síðustu jól átti hópur áhrifaríkra stjórnarerindreka fund með forseta Allsherjarþingsins Jan Eliasson í höfuðstöðvum SÞ í New York . Eliasson ákvað að þeim yrði ekki hleypt úr byggingunni fyrr en samkomulag lægi fyrir um fjárlög SÞ.  Eliasson fýsti mjög að halda heim til Svíþjóðar til að halda upp á jól en hvorki gekk né rak að ná samkomulagi. Forsetinn leit á klukkuna. Þar fór síðasta SAS flugið og þarna fór síðasta Lufthansavélin fyrir jól. Loks náðist samkomulag um tveggja ára fjárlög með 3.8 milljarða dollara niðurstöðutölum. Fjárlagakreppu var afstýrt en öll flug voru löngu farin og forsetinn komst ekki til Svíþjóðar fyrr en á öðrum í jólum.

Þetta var atburðarás sem var dæmigerð fyrir umbæturnar á SÞ– umbætur sem lentu nokkuð skyndilega á herðum hins margreynda sænska stjórnarerindreka. Alheimsleiðtogafundinum mistókst að hrinda umbótum í framkvæmd í september. Öll helstu viðfangsefnin voru skilin eftir óleyst og ákvörðunum skotið til Allsherjarþingsins. Á hinn bóginn hefur Allsherjarþingið orð á sér fyrir að vera vonlaus kjaftaklúbbur í alþjóðapólitík þar sem mikið er rætt en fáar ákvarðanir teknar.  Með öðrum orðum virtist umbótum hafa verið greitt náðarhöggið með því að fela Allsherjarþinginu þetta hlutverk.  

“Allsherjarþingið hefur aldrei gegnt jafnmikilvægu hlutverki og nú, en vantraust er ríkjandi og það er erfitt að kljást við vandamálin við slíkar aðstæður” segir Eliasson í viðtali við Helsingin Sanomat.   

Engu að síður hefur árangur náðst. Ný Friðaruppbyggingarnefnd hefur verið stofnuð. Einnig nýr neyðarsjóður á vegum SÞ…

Nýlega hóf Eliasson viðræður um stofnun Mannréttindaráðs sem ætlað er að leysa hina alræmdu Mannréttindanefnd í Genf af hólmi. Orðstír nefndarinnar hefur beðið hnekki vegna setu ýmissra ríkja í nefndinni sem hafa haft skelfilegt orð á sér fyrir mannréttindabrot. Bandaríkjamenn hafa aukið á vandann með því að leggja til að öll aðildarríki öryggisráðsins eigi sjálfkrafa sæti í nefndum SÞ, þar á meðal Mannréttindaráðinu

Hugmyndin þykir afleit því þar með fengju lönd á borð við Kína og Rússland, sem eru afttarlega á merinni í mannréttindamálum, þar sæti.  “Sjálfkrafa aðild af þessu tagi, ætti einungis að eiga við um nefndir sem fjalla um öryggismál innan SÞ,” segir Eliasson. “Bandaríkin hafa ekki lagt þetta til opinberlega enn”, bætir hann við.  Forsetinn reynir að þvinga fram lausn fyrir lok febrúar en þá á Mannréttindanefndin að koma saman í næsta og vonandi síðasta skipti.

Umbætur á SÞ krefjast mikillar vinnu. Að mati Eliasson liggur mesta vinnan í því að leggja niður óþarfar nefndir og stöður sem eru alls 3000. Þetta er ein af kröfum Bandaríkjanna. Ef árangur næst ekki fyrir lok júní, gæti Eliasson staðið frammi fyrir, ekki aðeins umbótavanda heldur einnig fjárlagakreppu. Um umbætur á öryggisráðinu segir Eliasson að allt sé “frekar rólegt”. Almennt samkomulag er um það að fjölga föstum aðildarríkjum ráðsins en ekkert samkomulag um útfærsluna

Mikið hefur verið skeggrætt um næsta framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna . Frambjóðandi frá Asíu virðist hafa byr þótt Bandaríkin segist vilja sterkan leiðtoga án tillits til þess hvaðan hann komi. Gæti Eliasson verið málamiðlun? “Ég hef ekki haft tíma til að velta slíku fyrir mér”, svarar forsetinn. ”Forystan í Allsherjarþinginu tekur allan minn tíma fram í september.”

Og þá heldur Eliasson heim til Svíþjóðar í eplauppskeruna.