Nýr forseti Allsherjarþingsins tekur við íslenska „Þórshamrinum“

0
34
Csaba Kőrösi (vinstri) forseti 77.Allsherjarþingsins afhendir  Dennis Francis, forseta nýja, 78.þingsins „Þórshamarinn“. Mynd: UN Photo/Manuel Elías
Csaba Kőrösi (vinstri) forseti 77.Allsherjarþingsins afhendir  Dennis Francis, forseta nýja, 78.þingsins „Þórshamarinn“. Til hægri er Amina Mohamme staðgengill aðalframkvæmdastjóra SÞ. Mynd: UN Photo/Manuel Elías

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Nýtt Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hið 78. í röðinni hófst í gær. Nýr forseti þingsins Dennis Francis frá Trinidad og Tobago tók við af Ungverjanum Csaba Kőrösi forseta 77.Allsherjarþingsins.

Samkvæmt venju afhenti fráfarandi forseti hinum nýja fundarhamar Allsherjarþingsins, sem oftast er kallaður „Þórshamarinn.“ Heitir hann því nafni einungis óbeint í höfuðið á Þrumuguðinum Þór, því hann á nafnið því að þakka að það var Thor Thors fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sem afhenti hann sem gjöf frá íslensku þjóðinni til Sameinuðu þjóðanna árið 1952.

Thor Thors og Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára
Thor Thors sendiherra.

Hamarinn og Khrústsjov

Hamarinn brotnaði árið 1960 á átakafundi á Allsherjarþinginu, sem vakti heimsathygli. Svo mikill hiti var í fundarmönnum að Nikolai Khrústsjov leiðtogi Sovétríkjanna barði í ræðupúltið með skó sínum. Mikið írafár varð á þinginu og Frederick Boland forseti Allsherjarþingsins barði af slíkum krafti í borð sitt til að stilla til friðar á þinginu að fundarhamarinn brotnaði.

Dag Hammarskjöld aðalframkvæmdastjóri til hægri ásamt Frederick H. Boland forseta Allsherjarþingsins.
Dag Hammarskjöld aðalframkvæmdastjóri til hægri ásamt Frederick H. Boland forseta Allsherjarþingsins.

Íslendingar útveguðu eftirlíkingu af hamrinum hið snarasta. Dugaði hún í hálfan fimmta áratug en þá týndist eftirlíkingin.

Enn á ný var Íslendingum falið að útvega fundarhamar og var listakonan Sigríður Kristjánsdóttir beðin um að hafa endingagildi í huga.

Hjálmar W. Hannesson fyrrverandi fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sagði í viðtali við vefsíðu SÞ fyrir nokkrum árum það hefði þótt viðeigandi að áletrun væri á hamrinum, sem sótt væri í Íslendingasögurnar. Áletrunina þekkir hvert mannsbarn á Íslandi: „Með lögum skal land byggja.“

77.Allsherjarþingið hófst formlega 13.september á síðasta ári og lauk í gær.

Sjá nánar um komandi Allsherjarþing hér.