Loftmengun álíka skæð og reykingar

0
21

Loftmengun er sá einstaki þáttur í umhverfinu, sem ógnar mest heilbrigði manna. Hún er ein af helstu hindranlegu dánar- og sjúkdómsorsökum í heiminum.  7.september er Alþjóðlegur dagur hreins lofts fyrir bláan himinn.

 Talið er að loftmengun verði að sjö milljónum manna að aldurtila á hverju ári. Tölur Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) benda til að níu af hverjum tíu jarðarbúum andi að sér lofti sem inniheldur umtalsverða mengun.  

Engin landamæri

„Loftmengun viðurkennir engin landamæri og ferðast þúsundir kílómetra með vindinum,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Hnattræn vandamál krefjast hnattrænna lausna. Og víst er að samvinnu er þörf til að tryggja hreint loft. Það er einmitt þema Alþjóðlegs dags hreins lofts fyrir bláan himinn 2023.

Nýjar tölur úr Air Quality Life Index að ef farið væri eftir vegvísi WHO um að takmarka öragna-mengun, myndu lífslíkur hvers einstaklings aukas um 2.3 ár að meðaltali. Samtals bættust við 17.8 milljónir lífára um allan heim. Öragna-mengun tengist lungna- og hjartasjúkdómum, heilablóðföllum og krabbameinum.

Dregur sjö sinnum meir úr lífslíkum en Hiv  

Áhrif öragna-mengunar eða PM2.5 á lífslíkur eru álíka miklar og af reykingum, þrisvar sinnum meiri en áfengisneysla og óöruggt drykkjarvatn. Þau eru fimm sinnum meiri en af umferðarslysum og sjö sinnum meiri en af HIV/AIDS, að því er segir í skýrslunni.

Slæm loftgæði eru áskorun fyrir öll ríki hvað varðar sjálfbæra þróun, sérstaklega í borgum og þéttbýli í þróunarríkjum. Þema alþjóðlegs  dagsins í ár “Saman í þágu hreins lofts” beinir sjónum að þörf yfir öflugra samstarf, aukna fjárfestingar og sameiginlega ábyrgð við að vinna á loftmengun.

Rannsóknir á Norðurlöndum benda til að tíðni dauðsfalla, sem rekja megi til loftmengunnar (PM2.5 og O3)) væri hæst í Danmörku en lægst á Íslandi.  

Loftmengun snertir sex Heimsmarkmiðanna; númer 3, 7, 11, 12, 13 og 17.

Fræðast má um loftmengun hér og hér.