Öryggisráðið bindur enda á friðargæslu í Malí

0
74
Friðargæsluliði MINUSMA stendur vörð.
Friðargæsluliði MINUSMA stendur vörð. Mynd: MINUSMA/Harandane Dicko

Malí. Friðargæsla. MINUSMA. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt samhljóða að leggja niður friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna í Malí frá og með 30.júní. Markmiðið er að friðargæsluliðar verði allir farnir frá landinu í lok árs.

Friðargæslusveitin í Malí, MINUSMA, hefur verið að störfum í áratug. Bráðabirgðastjórn er við völd í landinu eftir valdarán árið 2021. Öryggisráðið samþykkti að leggja niður friðargæslusveitina eftir að bráðabirgðastjórnin krafðist tafarlauss brottflutnings friðargæsluliða.

Öryggisráðið samþykkt í ályktun 2690 (2023) að loka friðargæslusveitinni. Mynd: MINUSMA.
Öryggisráðið samþykkt í ályktun 2690 (2023) að loka friðargæslusveitinni. Mynd: MINUSMA.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lauk lofsorði á starf friðargæslunnar og hvatti bráðabirgðastjórnina til samvinnu til þess að brottflutningur friðargæsluliða og eigna þeirra geti gengið snurðulaust fyrir sig á næstu mánuðum.

Brottflutningur hafinn

MINUSMA hafði raunar þegar dregið úr umsvifum sínum í Malí, en í febrúar 2023 voru 15 þúsund manns starfandi við friðargæslusveitina.

Öryggisástandið í Malí er talið vera slæmt. Undanfarinn áratug hafa viðsjár aukist í Malí og á Sahel-svæðinu öllu. Vígahópar, sumir með tengsl við hryðjuverkasamtök hafa vaðið uppi. Alls haf 309 friðargæsluliðar verið drepnir, að sögn MINUSMA.

309 friðagæsluliðar hafa fallið við skyldustörf fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Malí á tíu árum.
309 friðagæsluliðar hafa fallið við skyldustörf fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Malí á tíu árum. 309 MINUSMA personnel have lost their lives in the service of peace during the 10 years the mission has been deployed in Mali. ©Mynd: MINUSMA/Harandane Dicko

Ástandið hefur enn versnað vegna áfalla, sem rekja má til loftslagsbreytinga og átök hafa blossað upp vegna síminnkandi auðlinda. Skálmöld hefur ríkt sums staðar og ofbeldisverk verið tíð, fólk hefur flosnað upp, og óstöðugleiki ríkt.

Mörg aðildarríki Öryggisráðsins létu í ljós áhyggjur af því að öryggisástandið versni enn við brottför MINUSMA. Það fellur í hlut illa vopnum búins hers Malí að tryggja öryggi. Honum til fulltingis eru eitt þúsund liðsmenn Wagner-sveitanna rússnesku sem munu eiga í höggi við vígahópa sem hafa stór landsvæði í norður-og miðhluta landsins á sínu valdi.

Máli er landlukt ríki vesturhluta Afríku.  Það er áttunda stærsta ríki álfunnar og nær yfir rúmlega eina milljón og tvö hundruð og fjörutíu þúsund ferkílómetra, sem er álíka og Frakkland, Þýskaland og Ítalía samanlagt.  Íbúarnir er nærri 23 og hálf milljón.

 Brynvarin bifreið MINUSMA í Aguelhock í Mali.
Brynvarin bifreið MINUSMA í Aguelhock í Mali. Mynd: ©MINUSMA/Harandane Dicko

Þátttaka Norðurlanda

Norðurlönd hafa lagt MINUSMA lið í áranna rás. Sex Norðmenn eru þessa stundina í friðargæslunni í Malí, en Norðmenn höfðu um tima allfjölmennt lið þar í herstöð sem nefndist Bifröst, auk þess sem þrjár norskar flutningavélar voru starfræktar þar.

Svíar hafa nýverið kvatt sína friðargæsluliða heim. Danir hafa lagt til flutningavélar og ýmsan stuðning. Finnar hafa einnig verið meðal þátttakenda, en aðeins fjórir Finnar eru enn í Malí. Ísland leggur Friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna ekki til lið, en þó hefur að minnsta kosti einn Íslendingur verið að störfum fyrir MINUSMA í Malí.

Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna er 75 ára í ár 2023, sjá hér