Öryggisráðið hvetur til aukins hlutar kvenna í friðar- og öryggismálum.

0
482

Ekki er hægt að koma á varanlegum friði að loknum átökum ef öryggi og þjóðfélagsþátttaka kvenna er ekki á meðal helstu forgangsatriða friðargæsluliða. Þetta var boðskapur háttsettra embættismanna Sameinuðu þjóðanna á fundi Öryggisráðsins í dag.

 Inés Alberdi, forstjóri UNIFEM (Þróunarsjóðar Sameinuðu þjóðanna fyrir konur) tjáði Öryggisráðinu að takast yrði á við málefni kynjanna við málamiðlun í átökum auk þess að senda friðargæslusveitir til að skakka leikinn. Konur yrðu að taka þátt í að efla frið og öryggi. 
“Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem kynferðislegt ofbeldi hefur verið notað sem vopn í hernaði,” sagði Alberdi á fundi öryggisráðsins sem helgaður var konum, friði og öryggi.  
“Ef það er látið viðgangast að réttindi kvenna séu fótum troðin með því að menn komist refsilaust upp með afbrot sín, missir viðleitni til að endurreisa réttarríki trúverðugleika sinn,” sagði forstjóri UNIFEM.

Inés Alberdi, forstjóri UNIFEM ávarpar fund Öryggisáðsins.

Alberdi benti á að viðurkennt væri í ályktun Öryggisráðsins númer 1820 að öryggi kvenna væri þýðingarmkill þáttur í að koma á varanlegum friði á átakasvæðum. Í þeirri ályktun segir að nauðganir og annars konar kynferðislegt ofbeldi geti flokkast undir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. 
 “Við vitum að í sumum tilfellum aukast árásir á konur að loknum átökum. Kostnaður við friðaruppbyggingu vex ef einstök ríki og alþjóðasamfélagið taka ekki af festu á ofbeldi gegn konum,” sagði Alberdi.  
“Sá kostnaður felst í því að það dregst að koma á stöðugleika og sáttum í ríkjum þar sem réttarríki skýtur ekki rótum,” bætti hún við.

 Ályktun 1325 hefur breytt friðargæslu

“Þrátt fyrir framfarir, eru konur enn sniðgengnar og settar til hhliðar,” sérstakur Rachel Mayanja, ráðgjafi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í kynjamálefnum og valdeflingu kvenna.
“Það er skylda okkar gagnvart milljónum kvenna á átakasvæðum að nota þau tækifæri sem felast í ályktun Öryggisráðsins númer 1325 en þar er á ferð eit jákvæðasta framlag í lausn deilna sem fram hefur komið á þessari nýju öld,” sagði Rachel Mayanja.
Í ályktun Öryggisáðsins númer 1325 sem samþykkt var fyrir átta árum er lögð áhersla á  jafna og fulla þátttöku kvenna í friðar- og öryggismálum og að efla beri hlutverk þeirra í ákvarðanatöku. 
Alain Le Roy, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og yfirmaður friðargæslunnar skýrði ráðinu frá þeim aðgerðum sem deild hans hefur gripið til í því skyni að auka hlut kvenna og kynjasjónarmiða í öryggis- og friðarstarfi. 
“Það eru engar ýkjur að segja að á þeim átta árum sem liðin eru, hefur ályktun 1325 breytt aðferðum okkar í friðarviðleitni,” sagði Le Roy. 
Hann benti á að tilvist ályktunarinnar væri konum á svæðum þar sem átök hafa geysað, hvatning til að gera meiri kröfur til friðargæslusveita í kynjamálum. Nefndi hann sérstaklea að komið hefði verið á fót samskiptaferli á milli forystu friðargæslusveita og kvennasamtaka í Lýðveldinu Kongó, Côte d’Ivoire og Kosovo.
“Friðargæsluliðar okkar skilja mætavel að viðleitni okkar til að hindra að átök blossi upp að nýju, nær aðeins tilætluðum árangri ef allir samfélagsþegnar eiga hlut að máli í því að vernda friðinn,” bætti Le Roy við. 

Friðargæsluliðar styðja konur

Hann benti á að friðargæslusveitir hefðu stutt þátttöku kvenna í kosningum í mörgum ríkjum. Le Roy tjáði Öryggisráðinu að það væri ekki nóg að konur kjósi eða séu kosnar í embætti; stærsta áskorunin væri að þær hrökluðust ekki úr embættum og gætu beitt sér fyrir framförum í kynbundnum málaflokkum.  
“Á Timor-Leste, svo dæmi sé tekið, sögðu fjórar konur skilið við þingmennsku á fyrstu þremur mánuðunum eftir kosningar 2002. Við verðum að fjárfesta í því að veita tæknilega aðstoð við þá sem ekki eru vanir ákvarðanatökuferli, formlegum pólitiskum aðferðum og lagasetningarferli,” sagði Le Roy. 

Öryggisráðið: Ban skipi fleiri konur

Að loknum ræðum fulltrúa tuga aðildarríkja las Zhang Yesui sendiherra Kína sem situr í forsæti Öryggisráðsins í októbermánuði yfirlýsingu þar sem alþjóðasamfélagið var hvatt til að auka þátttöku kvenna og efla hlut þeirra í ákvarðanatöku í viðleitni til að hindra átök, leysa deilur og byggja upp frið. 
Þá var Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvattur til þess í yfirlýsingu forseta ráðsins, að skipa fleiri konur í áhrifastöður ekki síst sem sérlega fulltrúa og sendimanna.
“Öryggisráðið fordæmir einnig kröftuglega hvers kyns brot á alþjóðalögum gegn konum og stúlkum hvort heldur sem er á meðan átök standa yfir eða eftir að þeim lýkur. Hvetur ráðið alla aðila til að láta af slíkum ofbeldisverkum þegar í stað og hvetur aðildarrríkin til að refsa þeim sem gerast sekir um glæpi af þessu tagi,” segir í yfirlýsingu Öryggisráðsins.