Efla ber réttindi flóttafólks í eigin landi

0
542

eftir Walter Kälin fulltrúa framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í málefnum flóttafólks í eigin landi.

Og þarna voru þau: Tylft tötrum klæddra karla og kvenna sem höfðu gengið svo klukkustundum skipti í gegnum frumskóginn til að hitta mig í niðurníddum skóla á Kyrrahafsströndinni. Þau töluðu um að þau hefðu flúið sannkallaða vargöld og skilið allt sitt eftir og berðust nú fyrir tilveru sinni.

Og þá bætti einn maður við: “Þrátt fyrir allar þessar þjáningar, vitum við eitt og það er að við höfum OKKAR réttindi sem eru innsigluð í skrá um grundvallarréttindi  flóttafólks innanlands. Þar segir að við höfum rétt á öryggi, rétt á mat og heilsugæslu og rétt til þess að snúa heim á ný. Þetta gefur okkur von.”  

Þetta snart mig djúpt. Ég tók þátt í því á miðjum tíunda áratug síðustu aldar að semja þessa réttindaskrá, að beiðni dr. Francis Deng. Síðar tók ég við starfi hans  sem sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum flóttafólks í eigin landi.

Börn í Motael flóttamannabúðunum í Dili á Timor-Leste.

Enginn alþjóðasamningur verndaði flóttafólk innanlands

Á þeim tíma datt engum í hug að réttindaskráin yrði uppspretta vonar hjá því fólki sem við vildum hjálpa; fólki sem skyndilega hefur flosnað upp og orðið að flýja heimili sín og skilja eignir sínar og lífsafkomu og allt sem þeim er kært eftir. 

Deng hafði gert sér ljóst að ólíkt flóttafólki sem flýr heimaland sitt og leitar á náðir annara ríkja; naut flóttafólk sem flosnað hefur upp innanlands ekki verndar alþjóðlegs sáttmála. Hann taldi einnig mikilvægt að árétta að flóttafólk í eigin landi, hefur ekki tapað mannréttindum sínum. Af þessum sökum vildi hann taka saman skrá um grundvallarréttindi flóttafólks innanlands með hliðsjón af gildandi alþjóðlegum mannréttinda- og mannúðarlögum. 

Nýverið var tíu ára afmælis réttindaskrár flóttafólks í eigin landi fagnað á mikilvægri ráðstefnu í Osló. Þegar Francis Deng afhenti Sameinuðu þjóðunum skrána árið 1998, var mikilvægt skref stigið. Í fyrsta skipti var viðurkennt afdráttarlaust að flóttafólk innanlands hefði sérstakar þarfir og réttindi. Samstaða var að nást um hverjar þau væru nákvæmlega. 

Vopn í höndum flóttafólksins

Frá því á fundi leiðtoga ríkja og ríkisstjórna í New York 2005, hefur réttindaskrá flóttafólks innanlands verið viðurkennd sem mikilvægur alþjóðlegur lagarammi um vernd flóttafólks í heimalandi sínu. Þau eru ríkisstjórnum, alþjóðlegum mannúðarstofnunum og borgaralegu samfélagi um allan heim leiðarljós og leiðbeiningakver um hvernig ákjósanlegast sé að uppfylla þá skyldu að vernda karla, konur og börn sem hafa þvert gegn vilja sínum flosnað upp í heimalandi sínu. Dæmi eru um að réttindaskráin hafi verið tekin inn í friðarsamkomulög. En síðast en ekki síst er hún vopn í höndum flóttafólksins sjálfs. 

Sérstakur friðarsendiboði Sameinuðu þjóðanna, leikarinn George Clooney heimsækir El Sheriff búðirnar í Nyala í Súdan. Þær hýsa Súdani sem orðið hafa að flýja heimili sín.

Fleiri eru flóttamenn í eigin landi en landflótta

Þrátt fyrir þennan árangur, er engin ástæða til að fagna. Í dag er talið að 26 milljónir manna hafi flosnað upp í heimalöndum sínum vegna átaka eða útbreidds ofbeldis. Þetta er meir en tvisvar sinnum fjöldi flóttafólks sem orðið hefur að flýja heimalönd sín. Milljónir hafa að auki orðið að flýja heimili sín vegna náttúruhamfara og loftslagsbreytinga. Enn aðrir hafa flosnað upp vegna þess að heimili þeirra hafa orðið að víkja fyrir virkjunum, flugvöllum, hraðbrautum og öðrum þróunarverkefnum án þess fólkið fái tækifæri til að hefja nýtt líf annars staðar. Alls staðar í heiminum eru réttindi brotin á flóttafólki í heimalöndum sínum; stundum viljandi, stundum vegna vanrækslu.  

Við ættum öll að tvíefla viðtleitni okkar til að vernda og hjálpa uppflosnuðu fólki innanlands um allan heim. Hvað þýðir það? Aðilar í vopnuðum átökum verða að virða alþjóðleg mannúðarlög til að hindra að fólki sé stökkt á brott frá heimilum sínum og ryðja brott hindrunum fyrir mannúðaraðstoð. Þá ættu ríkisstjórnir að sýna meiri vilja til að virða, vernda og uppfylla réttindi þeirra sem flosna upp í eigin landi. Þær geta gert mun meira til að standa við skuldbindingar sínar.

Mugunga og Bulengo flóttamannabúðir í Norður-Kivu í Lýðveldinu Kongó.

Flóttafólk þekki rétt sinn

Staðbundin ríkjasamtök gætu tekið forystu í að vakta réttindi flóttafólksins og leita lausna á þeim deilum sem valda flóttamannastraumi. Sameinuðu þjóðirnar og önnur mannúðarsamtök, gætu verið skilvirkari í að tryggja réttindi og koma flóttafólki innanlands til hjálpar hvort heldur sem það flýr átök eða náttúruhamfarir. Veitendur aðstoðar ættu að auka mannúðaraðstoð við flóttafólks innanlands og sérstaklega beita sér fyrir réttindum þess. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ætti að hafa forystu um að efla og fylgjast með því að réttindi flóttafólks innanlands séu vert. Grundvallarréttindaskráin er góður leiðarvísir fyrir alla þessa aðila.

Loks ætti flóttafólkið sjálft að þekkja réttindi sín og hafa aðgang að lögfræðiráðgjöf til þess að geta notið þeirra. Eins og uppflosnuð ekkja í suðurhluta Afríku sagði á námskeiði: “Ef við þekkjum réttindaskrána, getur líf okkar batnað.” 

Walter Kälin, er sérstakur fulltrúi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum flóttafólks í eigin landi.