Ráðgáta hvers vegna brjóstagjöf lagðist lengi af á Íslandi

0
105
Ísraelskar mæður njóta leiðsagnar við brjóstagjöf. Mynd: Wikimedia Commons
Ísraelskar mæður njóta leiðsagnar við brjóstagjöf. Mynd: Wikimedia Commons

Alþjóða brjóstagjafarvikan. Brjóstagjöf.  Ein helsta ástæða þess að tíðni ungbarnadauða á Íslandi var löngum með því hæsta í Evrópu,  er líklega sú að íslenskar mæður höfðu börn ekki á brjósti um aldir. Nokkur ráðgáta er hvers vegna íslenskar konur hættu að hafa barn á brjósti, því skriflegar heimildir eru um að slíkt hafi verið vani á landinu á söguöld.

1.-7.ágúst er alþjóða brjóstagjafarvikan.

Brjóstagjöf er í dag algeng á Íslandi. Hún var sögð algeng og langvarandi á miðöldum en var hverfandi að minnsta kosti á 18. og 19.öld og jafnvel lengur að því er fram kemur í nýlegri BA-ritgerð Þórunnar Helgu Jóhannesdóttur í mannfræði um sögu brjóstagjafar á Íslandi.

Gríðarlega mikill ungbarnadauði á Íslandi á þessum tíma er ekki síst rakinn til þess að börn voru ekki höfð á brjósti, þótt ekki sé algjör einhugur um það meðal fræðimanna. 20–35% barna dóu fyrir eins árs aldur, en hlutfallið var mun lægra í Evrópu og þar var það hæst í borgum sem ekki var til að dreifa á Íslandi á þessum tíma.

Í stað brjóstamjólkur var hvítvoðungum gefin kúamjólk og önnur fæða með þeim afleiðingum að þeir fengu niðurgang, misstu vökva og dóu. Stungið var oft og tíðum grútskítugum dúsu upp í börn og lítils hreinlætis gætt við meðferð mjólkur.

Mynd eftir Auguste Mayer úr leiðangri
Mynd eftir Auguste Mayer úr leiðangri Pauls Gaimard. Wikimedia Commons

Ráðgáta

Nokkur ráðgáta er hvers vegna brjóstagjöf lagðist af á Íslandi, en nokkuð almenn skoðun er að þar hafi vinnuálag mæðra ráðið miklu. Bent er á að hugsanlega hafi tvær plágur sem gengu yfir í byrjun og lok fimmtándu aldar einhverju ráðið.

Þá hafi mikið álag verið á konum vegna langvarandi fjarveru heimilisfeðra við sjómennsku. Hins vegar eru þetta tæpast tæmandi skýringar enda vinnuálag mæðra hvarvetna mikið.  Sjómennska var sannarlega víðar stunduð en á Íslandi án þess að brjóstagjöf leggist af, að ekki sé minnst á fjarveru vegna hermennsku. Athygli vekur einnig að brjóstagjöf tíðkaðist við sjávarsíðunaa, þar sem einstaka fjölskyldur hreinlega bjuggu ekki svo vel að eiga kýr.

Reglugerð 1840

Árið 1840 var gefin út reglugerð áþar sem hvatt var til brjóstagjafar. Smám saman breyttust viðhorf og eins og Ólöf Garðarsdóttir sagnfræðingur hefur bent á lækkaði tíðni ungbarnadauða samhliða því sem brjóstagjöf jókst.

Ritgerð Þórunnar Helgu Jóhannesdóttur er að finna á vefsíðu Skemmunnar http://hdl.handle.net/1946/43096