Sameinuðu þjóðirnar reiðubúnar að nýta hlé á átökum í mannúðarskyni

0
6

Gasasvæðið. Mannúðaraðstoð er farin að streyma til Gasasvæðisins á ný. Tímabundið vopnahlé tók gildi í morgun, föstudag 24.nóvember, eftir að samkomulag tókst um lausn gísla í haldi Hamas-samtakanna.

Búist er við að fyrstu gíslarnir verði látnir lausir klukkan tvö í dag að íslenskum tíma og verði alls 50 látnir lausir á fjórum dögum. 150 fangar, konur og börn, verða síðan látnir lausir úr ísraelskum fangelsum.

Martin Griffiths, forstöðumaður mannúaðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum segist hlakka til að hægt verði að nýta vopnahléið í mannúðarskyni. Hann vonist til að þetta leiði til lengri vopnahéls með hagsmuni íbúa Gasa og Ísraels að leiðarljósi.

Mannúðarstofnanir reiðubúnar

„Mannúðarstofnanir eru undirbúnar og tilbúnar til að auka flutninga á mannúðaraðstoð til Gasa og dreifingu innan svæðisins,“ sagði Griffiths í yfirlýsingu. „Við ítrekum ákall okkar. Það ber að virða mannúðarlög að fullu. Leyfa ber óhindraðan og öruggan aðgang mannúðarsamtaka að og innan Gasasvæðisins til þess að við getum komið aðstoð til nauðstadds fólks hvar sem það er. Við hvetjum til verndar óbreyttra borgara, þar á meðal þeirra sem leitað hafa skjóls frá árásum.  Þá ber að sleppa gíslum tafarlaust og án skilyrða.

Hungur sverfur að íbúum Gasa. Cindy McCain forstjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) segir að um leið og öruggur aðgangur sé tryggður geti stofnunin aukið stuðning sinn við Gasa.

McCain segir að á meðan á hléi á átökum standi muni flutningabifreiðar  WFP  hlaðnir „matvælum fyrir fjölskyldur í skýlum og heimilum um allt Gasasvæðið og hveiti fyrir bakarí, sem geti hafið starfsemi á ný.“

Samkvæmt síðustu skýrslum mannúðarsamtaka Sameinuðu þjóðanna var hveiti á þrotum á mörkuðum í norðurhluta Gasa og bakarí óstarfhæf vegna skorts á eldsneyti, vatni, hveiti og eyðileggingar af völdum stríðsins.

 

Meira er þörf

McCain sagðist vonast til að meiri eldsneytisflutningar verði leyfði til þess að „vöruflutningabifreiðar okkar geti komið bráðnauðsynlegum birgðum til skila og hægt sé að kasta líflínu til hundruð þúsunda manna á hverjum degi.“

Leyft var að flytja 75 þúsund lítra af eldsneyti til Gasa frá Egyptalandi á miðvikudag. Griffiths mannnúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í síðustu viku að þörf væri á 200 þúsund lítrum daglega.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnaði samkomulaginu um lausn gísla og hléi á átökum á miðvikudag.

„Þetta er mikilvægt skref í rétt átt, en mun meira er þörf,“ sagði Guterres í yfirlýsingu.