Samkomulag um flutning 1 milljónar flóttamanna

0
509
ChildSyria1

ChildSyria1

10.ágúst 2016. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa náð samkomulagi um pólitíska yfirlýsingu þess efnis að meir en ein milljón flóttamanna verði fluttir til nýrra griðastaða.

Refugee summit logoDrög að yfirlýsingu leiðtogafundar um flóttamenn og farandfólk var samþykkt eftir fimm mánaða samningaviðræður. Drögin verða grundvöllur umræðna og niðurstaðna fundarins sem verður haldinn á vettvangi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 19.september.

Tillaga aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um að 10% flóttamanna skyldu fluttir til nýrra staða hlaut ekki náð fyrir augum aðildarríkjanna.

Hins vegar segir Karen AbuZayd, sérstakur ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna um leiðtogafundinn að ástæða sé til að fagna niðurstöðunni. 

„Ég vil að fólk líti á þetta í samhengi. Árið 2015 lagði Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna til að 135 þúsund flóttamenn skyldu fluttir á nýjan stað. Flóttamannahjálpin óskaði eftir því og við lögðum til ákvæði um að 10% flóttamanna skyldu fluttir á hverju ári. Á þessu ári eru flóttamenn 21 milljón að tölu og því myndi þetta þýða að tvær milljónir flóttamanna skyldu fluttir til nýrra ríkja,“ segir Karen AbuZayd í viðtali við vefsíðu Sameinuðu þjóðanna.

„Þetta væri einstaklega stórt viðfangsefni, hvernig sem á það er litið. Það þyrfti að fá ríki til að samþykkja að taka við fólkinu og það þyrfti að láta tvær milljónir fara í gegnum mótttökuferli. Í drögunum er samþykkt að taka við 1.09 milljón. Ein milljón er helmingur þess sem við lögðum til en það er líka níu sinnum meira en þeir 135 þúsund sem fluttir voru á nýja staði á síðasta ári. Ég held að við ættum að gleðjast mjög yfir því að svo há tala sé í drögunum.“

Þegar talað er um að flytja til flóttamenn (resettlement), er átt við að þeir sem hafast við í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum heimalandanna, átakasvæða á borð við Sýrland, verði fluttir til annara ríkja.

Leitðogafundurinn um málefni flóttamanna og farandfólks er haldinn á vegum forseta Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd aðildarríkjanna. Þetta er í fyrsta skipti sem boðað er til sérstaks leitðogafundar oddvita ríkja og ríkisstjórna um hina miklu fólksflutninga flóttamanna og farandfólks.

Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna og skuldbindingarnar sem lagt er til að aðildarríki undirgangist, eru andsvar við því að nú er talið að fjöldi þeirra sem flúið hafa heimili vegna ofbeldis og ofsókna, hefur nú náð 60 milljónum í fyrsta skipti síðan samtökin voru stofnuð fyrir rúmum sjötíu árum.

Í skýrslu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna Global Trends 2015 kemur fram að í árslok 2015 höfðu 65.3 milljónir manna hrökklast frá heimilum sínum. Þar af teljast 21.3 milljónir manna flóttamenn, 3.2 milljónir eru hælisleitendur og 40.8 milljónir eru á flótta innan heimalanda sinna.

 Mynd: Börn sem fúið hafa heimili sín, í tjöldum á við Muhalak þjóðveginn í vesturhluta Aleppo í Sýrlandi. UNICEF/Khuder Al-Issa