SÞ skera upp herör gegn hommahatri

0
490

Tutu Pillay

30. júlí 2013. Sameinuðu þjóðirnar hafa hleypt af stokkunum nýrri fræðsluherferð til að berjast gegn hommahatri og andúð á transfólki. Í 76 ríkjum eru sambönd samkynhneigðra enn ólögleg. Samkynhneigðir af báðum kynjum, tvíkynhneigðir og transfólk geta átt yfir höfði sér handtökur, fangelsun, pyntingar og í fimm ríkjum dauðarefsingu. 

Navi Pillay, Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna ýtti herferðinni úr vör á blaðamannafundi Höfðaborg í Suður-Afríku ásamt Desmond Tutu, erkibiskup og Edwin Cameron, dómara við stjórnlagadómsstól landsins. Herferðin Frjáls og Jöfn (Free & Equal) er herferð til að auka virðingu fyrir réttindum lesbía, homma, tvíkynhneigðra og transfólks um allan heim.

Pillay sagði á blaðamannafundinum að það nægi ekki að breyta lögum og stefnumiðum til að uppræta mismunun, heldur þyrfti að breyta afstöðu almennings.
„Það er aldrei auðvelt að breyta viðhorfum,” sagði hún. “En slíkt hefur tekist áður og þetta er nú þegar að gerast í mörgum heimshlutum. Oft byrjar þetta á erfiðum samtölum. Með þessari herferð viljum við leggja okkar lið til að hjálpa til við að upplýsa milljónir slíkra samtala um allan heim og þvert á alla hugmyndafræði.”
Pillay sagði að Nelson Mandela væri eitt helsta leiðarljós herferðarinnar og minnti á trú hans á menntun sem beittasta vopnsins gegn fordómum. “Hann var vanur að segja að fólk fæddist ekki hatursfullt heldur lærði að hata. Og ef fólk getur lært að hata, er hægt að kenna þeim að elska.Og hjarta mansnins er eiginlegra að elska en að hata.”
Auk þess að birta upplýsingar og greinar mun Frjáls og jöfn verða vettvangur skapandi innleggja allt frá stuttum myndböndum, frásögnum og staðreynda á myndrænu formi. Vefsíðan er hér: UNFE.org.

Fjölmargir heimsþekktir listamenn leggja átakinu lið og má nefna söngvarana Ricky Martin, Yvonne Chaka Chaka og Daniela Mercury. Bollywood leikkonuna Celina Jaitly, og rithöfundinn Paulo Coelho.

Mynd: Frá vinstri Edwin Cameron, Desmond Tutu og Navi Pillay. SÞ-mynd: Casey Crafford.